145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hafði þar til fyrir ekki mjög löngu síðan gert ráð fyrir því að starfsáætlun mundi í meginatriðum haldast. Það er orðið ljóst að svo er ekki og við fáum engin svör um það hvernig fólk ætlar að forgangsraða vinnunni. Og miðað við reynsluna þýðir ekki að gera ráð fyrir því að við verðum hér fram í miðja næstu viku eða svo. Ég verð að gera ráð fyrir því að við verðum hér mun lengur og reyndar ætla ég að vera svo svartsýnn að ímynda mér að hér verðum við til kjördags vegna þess að það er algerlega hætt að koma mér á óvart hvernig þinginu dettur í hug að fara með tíma sinn. Þá tala ég af reynslu á þessu kjörtímabili.

En ef þingið lengist vil ég fá að vita það, vegna þess að ég vil þá fara að undirbúa fleiri þingmál til þess að leggja fram á þeim tíma sem við höfum. Ég óska því svara um hvort virðulegur forseti viti eitthvað meira um fyrirhugaða forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í sínum málum.