145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð aðeins að bregðast við því sem tveir hv. þingmenn hafa nefnt og kallað myrka framtíðarsýn, þá sem ég nefndi hérna áðan. Hún er vissulega myrk, hún er vissulega óboðleg. Ég tek undir það og styð heils hugar tillögu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, sem aðrir hér hafa lýst yfir stuðningi yfir, enda er hún heldur sjálfsögð í sjálfu sér. Þótt framtíðarsýnin sé myrk er það bara reynsla mín að það borgar sig að vera svartsýnn þegar kemur að dagskrá þingsins, þegar kemur að starfsáætlun þingsins. Það hefur verið undantekning frekar en regla að hún standist þannig að ég get ekki sagt að ég sé rosalega hissa. Auðvitað er það óboðlegt nú sem fyrr, en maður hættir á einhverjum tímapunkti að vera hissa á því. Ef við höfum meiri tíma til að leggja fram þingmál finnst mér mikilvægt að við fáum að vita það vegna þess að það eru ýmis mál sem mig langar enn þá að leggja fram en hafði ekki séð fyrir mér að ég hefði tíma til að gera. Ef ég hef tíma vil ég fá að vita það.