145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég heyri að hún hefur efasemdir eins og ég um hraðann á málinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé löngu tímabært. Ég hefði hins vegar viljað jafna upp á við en ekki niður á við. Þegar um er að ræða kjör fólks finnst mér ævinlega að horfa eigi til þess að jafna upp á við og reyna að toga þá lægra launuðu upp á við í öllum sínum réttindum. Það er svolítið sérstakt að fyrir liggi ályktanir frá BSRB síðan 11. mars 2011 þar sem ASÍ er skammað fyrir að leggja til að samræmt verði niður á við. Hér er hins vegar verið að gera það og BSRB skrifar undir það. Það sem mér finnst þó ámælisvert í ferlinu er að forustan skrifar undir og ber það ekki undir félaga sína áður en sest er að samningaborði, eins og gert er þegar verið er að semja um kjör. Þetta eru auðvitað kjör. Þetta er eitt af því sem mér finnst athugunarvert við málið. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé, eins og það lítur út í dag, til þess fallið að langtímasátt verði á vinnumarkaðnum? Er hv. þingmaður sammála því?

Svo er annað, af því að við erum báðar hrifnar af því að fá einhverjar sviðsmyndir. Mér finnst svolítið skrýtið í þeirri rosalegu kerfisbreytingu sem hér er verið að leggja til að það eru í rauninni engar sviðsmyndir dregnar upp til að sýna hvernig þetta muni líta út, hvorki er varðar laun né lífeyriskjörin almennt. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í það.