145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er ýmsu ábótavant, hef ég tekið eftir þegar við skoðum jafn viðamiklar kerfisbreytingar. Það er nákvæmlega þetta með sviðsmyndirnar: Hvort er verið að jafna upp á við eða niður á við? Það fer eftir því hvaða hópa við horfum á. Það er allt í lagi að jafna niður á við þegar um er að ræða algjörlega tekjuhæstu hópana innan lífeyrissjóðakerfisins. Það er nákvæmlega það sem er vandamálið við þetta og ástæðan fyrir því að við þurfum að hafa sviðsmynd er að það eru ekki allir með sömu laun í opinbera geiranum og heyra undir þennan sjóð, sem er náttúrlega alveg gífurlega mikilvægt að taka tillit til.

Ég man ekki alveg hvernig spurning hv. þingmanns var en hún var mjög áhugaverð. (BjG: Ég var að tala um langtímasátt á vinnumarkaði.) Já, langtímasátt á vinnumarkaðnum er náttúrlega algjör grundvallarforsenda. Ég er mjög hrifin af því fyrirkomulagi sem SALEK hefur haft. Það þýðir að við þurfum að taka þátt í því. Það sem hefur gerst núna er að ráðuneytisstjórar og fleiri fengu umtalsvert meiri launahækkun en flestir. Þá spyr maður sig: Af hverju er það skynsamleg aðgerð? Þingmenn hafa dregist aftur úr, en við þurfum líka að horfa til þess að við erum á viðkvæmum stað, við erum ekki komin í blússandi góðæri, eins og margir vilja halda fram. Að sama skapi þurfum við að ganga hægt um gleðinnar dyr. Þó að allt sé í lagi núna vitum við ekki hvað næsta ár ber í skauti sér. Mér finnst það vera full mikil bjartsýni að ætla að koma þessu í gegn. Við erum helst til of bjartsýn á það hvernig ríkisfjármálin verða næstu fimm til tíu árin.