145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins sagði áðan er ég mjög hlynnt því og hef verið það að við reynum að hafa hér eitt lífeyrissjóðakerfi. Hv. þm. Árni Páll Árnason spurði áðan hvort við ættum að taka sénsinn á því að sleppa þessu, að nú væru til fjármunir og að setja þyrfti þá inn í þetta kerfi. Ef það er einlægur vilji til þess að fara í þetta verkefni þannig að sæmileg sátt ríki um það og hægt sé að fjalla um það á viðunandi tíma held ég að hægt sé að setja málið í milliþinganefnd eða annað. Það er líka hægt að eyrnamerkja fjármuni ef samkomulag er á milli stjórnmálaflokka sem nú sitja á Alþingi um að málið nái fram að ganga með einhverjum þeim hætti en að það sé í eðlilegum umfjöllunarfarvegi.

Mér finnst mjög ámælisvert það sem kemur fram í samkomulaginu, mér finnst það bara svo stór hluti, þar sem segir að þegar lagfæra eigi launin eigi að þróa aðferðafræði til greiningar á launamun, ákvarða hlutlæg viðmið um hvenær leiðrétta beri launamun einstakra hópa, og svo eigi að gera áætlun um launamun á grundvelli kjarasamninga í allt að áratug. Þá er tengt inn í SALEK. Launaskriðstryggingin er eitt, svo er almenn launahækkun annað.

Sú ríkisstjórn sem hér situr, sem setur þá þessi lög ef þau verða að veruleika, henti út í buskann jafnlaunaátaki síðustu ríkisstjórnar. Hún taldi sig ekki bundna af því. Ég velti því bara fyrir mér: Af hverju í ósköpunum á fólk yfir höfuð að treysta því að það gangi eitthvað frekar eftir að jafna núverandi launamun (Forseti hringir.) plús það sem á eftir að gerast á næstu sex til tíu árum?