145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru gagnlegar umræður eins og svo oft áður þegar við ræðum viðamikil mál og skiptumst á skoðunum. Þetta mál er engin undantekning frá því. Ég er ánægð með að hér sé komin ákveðin niðurstaða. Ég ætla ekkert að leyna því að þetta er eitt af því sem hefur verið stefnt að til mjög langs tíma og í sjálfu sér afar gott að einhver niðurstaða sé komin, en hún er augljóslega ekki nægilega góð og ekki nægilega tilbúin, hún er ekki nógu þroskuð til þess að hægt sé að taka afstöðu til hennar þannig að maður geti verið viss um að a.m.k. nánast allir sem aðild eiga séu sæmilega vel settir. Það finnst mér ekki vera miðað við þær umræður sem hafa átt sér stað, þau bréf sem ég hef fengið og geri ráð fyrir að aðrir þingmenn hafi fengið í hendurnar frá óánægðum félögum. Ég er búin að starfa í öðru þeirra, kennarafélaginu, mjög lengi og finnst algjörlega ótækt að svo stór samtök hafi ekki fengið að segja álit sitt á þessu. Þetta eru aðilar sem eru búnir að fella í tvígang kjarasamninga og standa núna frammi fyrir þessu.

Ég sagði það líka áðan um 7. liðinn í samkomulaginu sem gert var, að það eigi að vinna sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar og aðilar ætla að beita sér fyrir að verði unnið að slíku, það kemur líka fram á bls. 14 í frumvarpinu, að þetta er eitt af því sem mér þykir svo stór óvissuþáttur. Mér finnst óeðlilegt að maður afsali sér réttindum til framtíðar um áramótin en svo á það bara að vera undir stjórnvöldum hvers tíma komið hvort, hversu mikið og hvernig eigi að jafna launin. Það er engin tilraun gerð í þessu frumvarpi til að takast á við það verkefni sem hlýtur að vera eitt af því stærsta því að rætt hefur verið að opinberi geirinn hafi ekki getað átt í almennilegri samkeppni við almenna vinnumarkaðinn vegna þess að kjörin séu miklu betri á almenna vinnumarkaðnum. Svo er auðvitað almenni vinnumarkaðurinn ekki bara einhver ein stærð, ekki frekar en opinberi geirinn er ekki ein stærð. Nú er talað um að það eigi að þróa einhverja aðferðafræði til greiningar á launamun og ákveða hlutlæg viðmið, hvenær eigi að leiðrétta launamun og gera svo áætlun. Ég skil eiginlega samt ekki í ljósi þess að málið hefur verið í vinnslu gríðarlega lengi af hverju er ekki búið að framkvæma eitthvað af þessari vinnu, það hefur a.m.k. ekki komið fram í umræðunni enn sem komið er, og það sé ekki hægt að flýta þeirri vinnu. Ég skil vel að fólk sé efins og treysti ekki á það að pólitíkin standi sig þegar kemur að þessu. Svo er náttúrlega ekki heldur gerð nein tilraun til þess að meta þann viðbótarkostnað sem ríkissjóður verður fyrir varðandi launajöfnun.

Það er auðvitað hnykkt á því í frumvarpinu að það verði að gera ráð fyrir, með leyfi forseta, að „launajöfnun í þessu tilliti verði innan þess svigrúms sem kjarasamningar og ríkisfjármálaáætlanir setja og að ýmsir aðrir þættir muni geta vegið þar til mótvægis, svo sem aukin framleiðni í opinberri starfsemi, endurskipulagning og hagræðing þjónustuveitingar, tækniþróun, ráðstafanir til að draga úr öðrum útgjöldum o.fl.“

Þetta er opið ekki bara í tvo enda heldur marga, held ég.

Ég vil líka nefna launajöfnunina í ljósi umræðunnar sem hefur verið undanfarið um launamun kynjanna. Það kom frétt á dögunum um árlega launakönnun sem SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu og Reykjavíkurborg hafa látið gera þar sem kemur fram að launamunur kynjanna er mjög mikill, allt að 20% hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og 13% hjá SFR. Konur eru að vinna í rúman mánuð launalausar. Sá launamunur er viðvarandi. Eins og ég sagði áðan í andsvari þá ákvað þessi ríkisstjórn að hún þyrfti ekki að taka mark á jafnlaunaátaki síðustu ríkisstjórnar sem sneri að kvennastéttum. Af hverju í ósköpunum erum við viss um að þessi launajöfnun nái eitthvað frekar fram að ganga? Ef allt er tekið til er núverandi launamunur milli félagsmanna VR og SFR í kringum 15, 16%. Bara það á eftir að jafna áður en til koma launabreytingar sem verða á þessu árabili sem núverandi stjórnvöld ætla sér í þetta verkefni. Ég hef ekki trú á því að það náist, ég verð bara að játa það.

Þegar kemur að þeim breytingum sem hér er verið að gera er aðalmálið annars vegar framtíðarréttindaafsalið sem hér er undir og síðan launajöfnun af því að hún er ekki gerð á sama tíma. Þau félög sem hafa verið nefnd sérstaklega eru fjögur aðildarfélög BSRB, þ.e. Landssamband lögreglumanna, Sjúkraliðafélag Íslands, Tollvarðafélag Íslands og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það síðasttalda bókaði gegn afgreiðslu samkomulags varðandi þessar breytingar á fundi formannaráðs BSRB. Manni þykir skrýtið að þetta sé algjörlega hunsað, það lítur a.m.k. þannig út og hafa ekki komið fram mér vitanlega neinar mótbárur við því. Það eru auðvitað mismunandi aðstæður að baki því hvers vegna félögin eru ósátt, en launaliðurinn er auðvitað fyrst og síðast það sem stendur upp úr. Það er ábyrgðarhluti af þingmönnum að ætla sér á nokkrum dögum að samþykkja mögulegt réttindaafsal fyrir komandi kynslóðir opinberra starfsmanna og fjölskyldna þeirra án þess að við höfum það miklu fastar í hendi hvað það kostar ríkissjóð, auðvitað verður alltaf að slá á einhverjar tölur, það gera sér allir grein fyrir því, og líka vegna ríkjandi launamunar. Maður skilur alveg að fólk sé tregt til að treysta því að það fái þessar bætur þegar haft er til hliðsjónar m.a. jafnlaunaátakið eins og ég nefndi.

Það eru engar tilraunir gerðar til þess að velta því fyrir sér hvernig eigi að meta launamuninn. Mér finnst það líka svolítið snúið. Ég skil ekki af hverju er ekki búið að vinna þessa vinnu. Ég vona svo sannarlega að það sé eitthvað til um það, trúi ekki öðru en að svo sé, hvernig á að fara að því að meta þennan launamun, hvaða hópa á að horfa til eða hvaða markaða þegar jafna á kjörin.

Það eru fleiri sem hafa bókað gegn þessu. Félag íslenskra náttúrufræðinga bókaði líka gegn þessu. Við höfum fengið tölvupósta frá kennarasamtökunum sem eru nýlega búin að fella kjarasamninga í tvígang og lítur í rauninni ekkert sérstaklega vel út þar. Þar þekkjum við umræðuna um leikskólakennara og grunnskólakennara sem hafa verið langt á eftir öðrum stéttum miðað við nám og annað slíkt. Síðan má auðvitað velta því fyrir sér þegar við tölum um við hvaða stéttir eigi að miða, t.d. eins og lögreglumenn, ef við ætlum að jafna kjör lögreglumanna, hvernig við ætlum að gera það og hvenær mundi það eiga sér stað. Erum við að tala um að sex árum liðnum, að fjórum árum, tíu árum? Ég veit það ekki. Við þurfum líka að hafa í huga að á þessum tíma er fólk auðvitað að eldast og það verður launaskekkja á þessum tíma og hún er a.m.k. 16% hjá þeim samtökum sem ég nefndi áðan. Við þekkjum það ekki að öllu leyti eða ég get alla vega ekki haft það eftir hversu mikill munurinn er á milli greina víða annars staðar. Raunveruleg jöfnun í launum er því mjög vandmeðfarin og verður auðvitað aldrei fullkomin, ég geri mér alveg grein fyrir því, það verður aldrei svo. En það vantar þessar sviðsmyndir þannig að við getum sett þetta upp og horft á það og sagt: Við ætlum að reyna að miða kjörin við þetta, miða þessa hópa við þessa, og eitthvað slíkt og gera tilraun til að sjá út hvað þetta kostar.

Þetta er ríkisstjórnin sem ætlaði ekki að setja neinar nefndir af stað, en hér á enn og aftur að setja af stað vinnuhópa og nefndir og reyna að sitja og semja um eitthvað.

Ég held að því miður sé þetta ekki til þess fallið að ná samkomulagi á vinnumarkaðnum. Þetta eru of stórir hópar sem hér eru undir sem eru ósáttir. Mér finnst það vera alvarleiki málsins. Ég nefndi kennara og marga fleiri, lögreglumennina. Þetta eru stórir hópar sem hafa verið í ákveðinni réttindabaráttu. Verkfallsrétturinn var afnuminn hjá lögreglunni og þeir áttu að fá það bætt í kjörum og telja sig ekki hafa fengið það bætt. Ég get ekki annað en tekið undir það í ljósi launaþróunar lögreglustéttarinnar sem ég fékk svar um, mig minnir að hafi verið í fyrrahaust, sem sýndi það og sannaði að þar voru réttindi látin af hendi sem ekki voru bætt í kjörum.

Ég vona að við á þingi berum gæfu til að skapa eitthvert þverpólitískt traust þó að það geti verið erfitt á stundum og við getum sett málið í farveg með þeim aðilum sem að því koma því að ég held að það sé einlægur vilji allra, eða allflestra a.m.k., auðvitað getur maður aldrei sagt allra, til þess að lagfæra lífeyriskerfið. Við getum eyrnamerkt fjármuni ef fólk hefur áhyggjur af því að þeir fjármunir sem hér er lagt til að verði settir í þetta verkefni hverfi, þeir þurfa ekkert að hverfa, þeir hverfa ekkert til áramóta, ekki nema fólk ákveði að hunsa þetta algjörlega. Það er hægt að gera þetta með margs konar framkvæmd, hvort sem það er milliþinganefnd eins og hér hefur verið nefnt eða eitthvað annað.

Að lokum langar mig til þess að undirstrika það sem ég hef verið að segja og ástæðuna fyrir því að ég hef áhyggjur fyrir hönd opinberra starfsmanna, með því sem kemur fram á Kjarnanum um launasamanburðinn og er haft eftir fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ég ætla að fá að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Launasamanburður milli opinbera og almenna markaðarins væri illmögulegur þar sem þessir markaðir væru ólíkir með tilliti til starfsstétta og stéttarfélaga, menntunar og fleiri þátta, þá eru ýmsar starfsstéttir sem vinna nær eingöngu á öðrum hvorum markaðnum. Einnig er mikill munur innan opinbera markaðarins, þ.e. milli ríkis og sveitarfélaga, sem skýrist m.a. af ólíku menntunarstigi. Af þessum sökum töldu aðilar sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á þessum grunni og því varð niðurstaðan sú að þetta þyrfti bæði að byggja á betri forsendum og ræðast frekar á milli aðila.“

Mér finnst þetta eiginlega undirstrika það sem áhyggjur mínar, sem ég hef reifað hér, byggja á. Ég ætla líka að fá að vitna í félaga minn, hv. þm. Ögmund Jónasson, en ég hygg að það séu fáir innan þings sem þekkja betur til lífeyrismálanna en hann, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Vandinn er svo sá að stórir hópar hjá hinu opinbera eru vissulega lakar settir en gerist á almennum markaði en hið gagnstæða er líka til í dæminu. Ef alhæft er, þá er hærri hluti launakerfisins hjá hinu opinbera sennilega lakar settur en hið gagnstæða á við um þá lægri. Þetta er ekki algild regla en vegna þessa hafa samtök langskólafólks yfirleitt verið hlynntari samræmingu en samtök þeirra, sem standa vörð um lágtekjufólkið.“

Ég ætla að biðja fólk að hafa þetta í huga þegar það veltir fyrir sér hvort það eigi að samþykkja málið hér á þessu þingi.