145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það einkenna þennan málaflokk og sömuleiðis almannatryggingar að notendahópurinn er almennt mjög ósáttur við ýmislegt. Þess vegna finnst mér leiðinlegt þegar laga á vandamál, vandamál sem vissulega eru til staðar, vandamál sem vissulega þarf að leysa, í bullandi ósætti við notendahópinn sem á að hagnast á því að vandamálið sé leyst. Mér þykir þetta líka miður í almannatryggingakerfinu og í öðru almannatryggingamáli sem við erum með, sem að vísu kostar 5 milljarða á fyrsta árinu, ef ég man rétt, en hefur þó í för með sér að til verða skerðingar sem munu valda ósætti hjá þeim hópi sem verður fyrir skerðingum í kjölfar lögfestingar þess frumvarps. Nóg um það.

Mér leiðist svolítið þegar svona miklar upphæðir eru teknar til að laga svona stórt vandamál og það er ekki gert í sátt, og þegar bent er á ósættið á fyrstu stigum málsins. Við erum enn hér í 1. umr. Málið er ekki einu sinni farið í nefnd enn. Og oft og tíðum, eins og hv. þingmaður sjálfsagt veit, fáum við þessar ákúrur, þessar ábendingar, eftir að málið er samþykkt þegar það er orðið of seint eða samdægurs um leið og atkvæðagreiðsla í 3. umr. á sér stað. Mér þykir það alltaf mjög miður og finnst mjög leiðinlegt þegar slíkar ábendingar koma þegar það er orðið of seint að taka tillit til þeirra. Þess heldur finnst mér mikilvægt að við tökum tillit til þeirra þegar þær berast á fyrstu stigum málsins og aftur. Við erum í 1. umr. Málið er ekki einu sinni komið til nefndar. Það hafa ekki einu sinni verið sendar út umsagnarbeiðnir enn, en samt er þetta að fara að koma inn sem segir mér að ósættið sé ofboðslega mikið. Þess vegna er það skylda okkar að taka tillit til þess.

Ég veit ekki hvort það á að kosta miklu meiri peninga, en mér finnst kominn tími til að þessi málaflokkur og skyldir málaflokkar séu meðhöndlaðir með tilliti til sáttar meðal þeirra sem styðjast við kerfið en ekki bara sáttar milli þeirra hópa sem semja.