145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Klukkan er rétt að verða fjögur og við erum við þetta hefðbundna stef. Því langaði mig að spyrja virðulegan forseta hvort það væru einhverjar fréttir af hálfu ríkisstjórnarinnar eða annarra, þingflokksformanna eða einhverra aðila sem geta tilgreint okkur forgangsröðun á þinginu í dag og á næstu dögum. Er eitthvað að frétta um það hversu lengi við verðum á þingi í október? Mér finnst mjög mikilvægt að við förum að sjá fram á einhverjar umræður alla vega og ef enginn er að tala saman finnst mér líka að við þurfum að tala um það. Þá finnst mér reyndar ekki við hæfi að við séum hér við þingfund að ræða þessi mál, á meðan það er ekki á hreinu. Þetta er grundvallaratriði. Þetta er ofboðslega sjálfsagt. Þetta er ekki frekja í minni hlutanum, eins og ég held að virðulegur forseti hljóti að vera sammála um. Mér þætti gott að fá svör við því hvort það sé eitthvað að frétta. Eru einhverjir listar komnir fram? Eiga einhver samtöl sér stað? Mér finnst það góð spurning. Eiga einhver samtöl sér stað yfir höfuð núna, ýmist milli þingflokksformanna eða formanna meiri hluta og minni hluta eða hvaðeina?