145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í apríl hópuðust 20–25 þúsund manns á Austurvöll. Krafa þeirra var að ríkisstjórnin segði af sér og það yrðu kosningar í vor. Þá svaraði ríkisstjórnin því til að það væru mál sem hún þyrfti mjög nauðsynlega að klára og nefndi sérstaklega haftamálin. Það þyrfti að klára þau svo að allt gengi sinn vanagang og færi ekki á hliðina. Svo leið og beið. Það voru tekin stór skref í haftamálum í júní og nú er á dagskrá seinna í dag annað skref í haftamálum. Það kemst ekki að vegna þess að við erum að reyna að knýja fram svör við því hvenær og hvernig (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkarnir ætla að ljúka þessu þingi. Við þurfum að fá svör. Þangað til við fáum þau svör verður ekki starfsfriður hérna, því miður. (Forseti hringir.) Þolinmæði okkar er gersamlega á þrotum.