145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek hér undir með félögum mínum, þetta er bagalegt og engum til skemmtunar, og ekki verður nú virðing þingsins meiri dag frá degi þegar fyrir alþjóð opinberast m.a. innantökur Framsóknarflokksins á öldum ljósvakamiðla. Það er alveg ljóst að það er partur af því að engin niðurstaða fæst í þinghaldið. Það er ólíðandi að svo sé.

Stóru málin. Fyrir alllöngu var sagt hér þau væru örfá og að þau væru upp talin. Það er klárt og þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Þess vegna skil ég ekki hvernig þjóðin á að geta treyst því fólki sem stendur ekki einu sinni við það sem það segir sjálft, hvorki varðandi það að boða til kosninga né að tiltaka tiltekin stór mál sem þurfi að klára. Það er í sjálfu sér í höfn. Þó að við yrðum hér alveg fram að kosningum þessar fjórar vikur, bara svo það sé sagt, er alveg ljóst að við getum ekki klárað öll þau mál (Forseti hringir.) sem liggja fyrir nú þegar því að þetta eru mál sem leysa átti á miklu lengri tíma, á einu ári. Ég hvet til þess að stjórnarliðar komi hér í hús og eigi við okkur samtal. Ég held að þeir séu níu staddir hér.