145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Þessar tvær stóru kerfisbreytingar sem hv. þingmaður nefnir, það er þetta lífeyrissjóðsmál sem við erum að tala um hér og framtíð þeirra mála og síðan breytingar á almannatryggingakerfinu. Í því máli sem við ræðum núna náðist breið samstaða á milli ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Í almannatryggingamálinu náðist þverpólitísk samstaða um málefni eldri borgara í þeirri nefnd sem vann að því máli. Það er svolítið sérstaða þeirra mála að það er búið að vinna þau vel, undirbúningsvinnan er góð og hefur tekið mörg ár, en þau eru seint komin inn í þingið. Við þurfum að gefa okkar lokaorð. Við þurfum að fara yfir málin alveg sama hversu flókin þau eru og finna, eins og hv. þingmaður nefnir, hvort þarna sé einhver skörun og hvort það sé eitthvað sem þurfi að girða fyrir til framtíðar. Við þurfum lengri tíma til þess. Það er ekki þannig að Alþingi sé bara einhver afgreiðslustaður. Þótt þverpólitísk samstaða og góður undirbúningur og breiður grunnur undir mál skipti mjög miklu máli og auðveldi okkur auðvitað að taka afstöðu er það ekki nóg eitt og sér. Við þurfum að fara yfir málið sjálft.