145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir flest ef ekki allt í ræðu hv. þingmanns, er sammála því. Mér finnst þetta vondur tímapunktur að fá þetta mál inn í þingið vegna þess að þessi vinna hefur átt sér langan aðdraganda og mikil vinna verið lögð í að ná málinu á þennan stað. Nú vill þannig til að fáir þingdagar eru eftir og málið er viðamikið eins og fram hefur komið. Kastað hefur verið fram einhverjum hugmyndum um milliþinganefnd, sem ég veit ekki mikið um en fékk þó þær upplýsingar að það væri í rauninni eitthvað sem væri mjög sjaldan gert og eitthvað sem ráðuneyti skipi. En svo er í þingsköpum Alþingis heimild að kalla til ákveðna nefnd sem mundi starfa á milli þinga.

Ég hugsa bara upphátt hvernig hægt er að tryggja að þetta mál sé ekki einhvern veginn … ef við klárum það ekki núna sé það bara út af borðinu. En mér finnst svo gríðarlega mikilvægt að þetta haldi áfram. Auðvitað er það ekki þannig að þeir peningar sem ríkið er tilbúið að setja í það, um 100 milljarðar, verði ekki áfram til staðar eftir kosningar. Það er ekki þannig. Það er ekki bara hæstv. fjármálaráðherra sem hefur völdin til að setja þessa peninga í þetta, það getur næsta ríkisstjórn gert líka.

Ég velti fyrir mér hvernig fer eiginlega best á því að við, af því að við erum sammála um að þetta sé mikilvægt, tryggjum að þetta mál haldi áfram, lifi af kjörtímabil og ríkisstjórnir og menn vinni áfram í þessu í næstu ríkisstjórn og hvort einhvers konar milliþinganefnd eða sérnefnd á vegum þingsins sé einhver lausn.