145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Nú tel ég það vera nauðsynlegt, út af því hvernig staðan er og hvað stutt er eftir af þinginu, að yfirmenn hér, forseti þingsins og formenn flokkanna, setjist niður og finni út úr því hvernig er hægt að búa um hnútana. Ég þekki ekki vel þingtæknileg mál en ég veit að ef viljinn er fyrir hendi þá er örugglega hægt að finna lausn. Við viljum ekki að málið falli niður. Þetta er mikið hagsmunamál og í því felast lausnir, bæði fyrir ríkissjóð og einstaklinga. Á hinn bóginn veit ég ekki og ég tel raunar að það sé ekki hægt að skuldbinda næsta þing með einhverju móti, að við sem erum hér getum bundið einhverja lausa enda og að þeir haldi þegar nýir þingmenn taki við. Þetta er bara vandamál og dæmi sem þarf að leysa. Við þurfum að finna út úr því ef tíminn er ekki nægur, sem hann er augljóslega ekki, hvernig við getum bundið um hnútana og borið virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem undir málinu er og því samkomulagi sem þó hefur náðst. Það vantar staðfestingu Alþingis hvernig við getum búið þannig um hnútana að það náist svo allir séu sáttir við sitt. Það er verkefni sem við þurfum að glíma við.