145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið mjög góður punktur sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það að með einhvers konar milliþinganefnd eða sérstakri nefnd gætum við þingmenn, sem verðum síðan kannski ekki endurkjörnir, einmitt verið að binda hendur næsta þings. Það er kannski ástæðan fyrir því að þetta úrræði er alls ekki oft notað. En það er rétt sem hv. þingmaður segir, auðvitað væri langeðlilegast með mál eins og þetta, sem ég lít á sem þverpólitískt í raun, að við mundum setjast niður með yfirstjórn, stjórnvöldum og forseta, og finna lausn. En staðan er víst ekki þannig.

Ég hef í sjálfu sér ekki aðra spurningu fyrir þingmanninn. Mér finnst það áhugavert þegar við tölum um kjörin að þá hafa opinberir starfsmenn þurft að sætta sig við lægri laun en á móti koma aukin lífeyrisréttindi. Nú eru kennarar ósáttir og segja að þeir geti ekki treyst því að þeir fái sambærileg laun. Ég skil það. En þetta er svolítið svona (Forseti hringir.) „catch 22“-vítahringur. Ekki er hægt að lofa því að hækka launin hér og nú. Eða hvað? Er það hægt?