145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í apríl þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hrökklaðist frá völdum neyddust forustumenn flokkanna í ríkisstjórn til þess að lýsa því yfir að hér yrðu kosningar í haust, því að það voru mikil mótmæli og vantraust á þessari ríkisstjórn. Þá var sagt að það ætti að klára nokkur stór mál. Núna 27. september hafa hæstv. ráðherrar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson ekki getað komið sér saman um hvaða mál það eru. Við höfum sýnt fádæma samstarfsvilja og lagt okkur fram um að greiða fyrir þeim málum sem við töldum góð og tókum þátt í að lagfæra þau. En þessi framkoma er beinlínis (Forseti hringir.) ósk um stríð. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn hefði nóg að gera í stríðum heima hjá sér og vildi ekki leyfa þau (Forseti hringir.) í þingsal. En það er kannski þannig, frú forseti. Svona finnst framsóknarmönnum (Forseti hringir.) kannski eðlilegt að koma fram, þumbast bara og láta sem ekkert sé (Forseti hringir.) þangað til allt springur í loft upp.