145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hennar ræðu. Mig langar í þessu andsvari að eiga við hana orðastað um kynjavinkilinn. Ég tel að hann sé óskaplega mikilvægur. Það er ekki að ósekju að það er meðal annars frá stéttum sem eru stórar kvennastéttir sem okkur hv. þingmönnum hafa verið að berast skeyti og tölvupóstar. Það sem mig langar að ræða við hv. þingmann er sú hlið þessa máls sem snýr að jöfnun launakjara á almennum og opinberum vinnumarkaði. Bent hefur verið á að ekkert sé fast í hendi þegar kemur að launahækkunum. Hins vegar, eftir því sem tíminn líður og manni gefst betra tækifæri til þess að kafa ofan i frumvarpið sjálft og fylgitextann með því, kemur ýmislegt í ljós.

Ég vil lesa upp úr athugasemd með frumvarpinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þá verður að gera ráð fyrir því að launajöfnun í þessu tilliti verði innan þess svigrúms sem kjarasamningar og ríkisfjármálaáætlanir setja og að ýmsir aðrir þættir muni geta vegið þar til mótvægis, svo sem aukin framleiðni í opinberri starfsemi, endurskipulagning og hagræðing þjónustuveitingar …“

Svo er haldið áfram.

Frú forseti. Er þetta ekki gríðarlega (Forseti hringir.) góð ástæða til þess að við konur stöldrum við og segjum: Heyrðu, hægan nú, þetta þarf að skoða betur?