145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á þessum hlátri því að þetta er auðvitað svo langt frá því að vera hlægilegt. Bara þessi texti, það rísa á manni hárin. Þetta tal um framleiðniaukningu — er þá framleiðni sjúkraliða á Íslandi ekki næg? Er það stórkostlegt vandamál á Íslandi að þar sé framleiðnin ófullnægjandi? Þetta er eins og hvert annað bull og lýsir svona votum draumum um útboð á allra handa rekstri sem í dag er opinber almannaþjónusta.

Það er mikilvægt að koma þessum málum í horf til framtíðar. Það verður aldrei gert algjörlega sársaukalaust. Þetta eru miklir hagsmunir. En það er ekki hægt að fara í aðgerðir af þessu tagi þegar tortryggnin er svona mikil í garð stjórnvalda. Þarna mundi ég sem kennari eða sjúkraliði eða hjúkrunarfræðingur vilja fá að vita meira um nákvæmlega þann orðaflaum sem er pakki utan um einkarekstur, svona dulbúin boðun á auknum einkarekstri, nema ég hafi lesið algjörlega rangt hugarheim þessarar ríkisstjórnar sem ég er farin að efast um að sé til lengur.

Ég skil vel þessa tortryggni. Hér hafa verið verkföll þar sem lög hafa verið sett á stórar kvennastéttir. Hér hafa kennarar verið að fella kjarasamninga sína í tvígang. (Forseti hringir.) Það er mikið vantraust út af kjaramálum. Það verður að horfa til þess þegar við ljúkum þessum málum.