145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og verð eiginlega að segja að það er með þetta mál, líkt og ýmis önnur frá hæstv. ríkisstjórn, að eftir því sem umræðunni vindur fram, eftir því sem betri tími gefst til þess að kafa ofan í málin, þá kemur þeim mun meira í ljós í textanum. Því miður er þetta ekki fyrsta málið sem við nánari rýningu sýnir að ekki er tekið tillit til ólíkra aðstæðna karla og kvenna í samfélaginu. Það er mjög nærtækt að benda á frumvarpið um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar komu fram, eftir því sem umræðunni vatt fram hér í þingsal, mjög alvarlegir ágallar á málinu þar sem, verði það óbreytt að lögum, í framtíðinni mun halla mjög á konur.

Ég held þess vegna, þó svo að okkur hafi kannski stundum fundist við vera að teygja lopann og lítið komast áfram, að við séum engu að síður, með því að rýna þetta mál og lúslesa það, að sjá þætti sem er mikilvægt að við þingmenn höldum til haga. Það virðist ætla að verða hlutskipti okkar sem berum réttindi og stöðu kvenna sérstaklega fyrir brjósti að vera sífellt í því að benda á að hæstv. ríkisstjórn virðist ekki gera neitt til þess að kynjagreina þann texta sem hún lætur frá sér fara.