145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Undan þessu máli svíður bæði og klæjar. Eins og ég hef sagt hér áður þá er mjög mikilvægt að finna varanlega lausn á þessum málum. Það er halli á A-deildinni og það þarf að koma þessum málum í betra horf. Eins höfum við jafnaðarmenn talað fyrir einum lífeyrissjóði fyrir alla, eða sambærilegu kerfi fyrir alla. Það eru ýmsir þættir þarna, þar á meðal launakjörin. Og við sem höfum haft áhuga á og höfum reynt að berjast gegn kynbundnum launamun vitum, þar sem búið er að greina aftur á bak og áfram allra handa upplýsingar, að þrátt fyrir þessa greiningu og samþættingu og vottanir og hvað það heitir, þá virðist ómögulegt að útrýma kynbundnum launamun. Nú er ég sannfærð um að það er vel mögulegt og okkur mun takast það að lokum, en sú reynsla er nóg til þess að konur á vinnumarkaði hugsi sig um tvisvar áður en þær trúa því að þessi vinna muni skila þeim sambærilegum kjörum og skerðingin á lífeyrisréttindunum hefur á kjör þeirra. Ég lái þeim það hreint ekki. Þegar orðalagið er eins og það sem hv. þingmaður las upp úr greinargerðinni er ekki við því að búast að samtal og sátt skapist um svona breytingar.