145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir svarið. Það eru nefnilega svolitlir vankantar á greinargerðinni með frumvarpinu, þ.e. það vantar ákveðnar sviðsmyndir. Við vitum ekki alveg hvernig þetta mun í raun og veru spilast út, hver útgjöld vinnuveitandans verða miðað við launþegann. Er verið að gera ráð fyrir því að fólk muni greiða í séreignarlífeyrissparnað samhliða þessu? Hversu hátt hlutfall af laununum mun þá fara til lífeyrissjóða? Erum við að tala um 9% á móti 9% og síðan séreignarlífeyrissparnað ofan á það? Hvað þýðir það? Um það bil 25%? Er það svolítið hátt? Er það nógu hátt? Er það of hátt? Eru þetta raunhæfar væntingar? Ég er nefnilega með margar vangaveltur um hvernig þetta muni spilast út. Mig langar til að vita hvort hv. þingmaður deili þessum áhyggjum með mér, sér í lagi þar sem vantar ákveðna sviðsmyndagreiningu. Með því að lesa frumvarpið og fara í gegnum það virðist vera að verið sé svolítið að líta á alla opinbera starfsmenn ríkisins sem einhverja eina heild. Það er bara ekki þannig. Það er náttúrlega gífurlega mikill munur á því hvort við erum að tala um sjúkraliða og kennara eða æðstu embættismenn ríkisins. Þetta er því spurning um hvar á að jafna og hvort eigi að jafna upp á við eða niður á við. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeim áhyggjum með mér að hér sé mögulega ekki verið að huga að láglaunastéttum og hvort einhver fótur sé fyrir því að það hafi í raun og veru ekki verið farið nógu vel yfir það við gerð þessa frumvarps.