145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Vangaveltur hv. þingmanns vekja mann náttúrlega til mikillar umhugsunar um það. Það er alveg rétt, það eru ekki sviðsmyndir þarna inni. Það eru svona almenn orð um hvernig þessir hlutir verði allir og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir las fyrir okkur fyrr í dag svona embættismannaklisju um hvað þyrfti að hafa í huga þegar talað væri um hvernig mætti minnka launamuninn. Það er náttúrlega einmitt þess vegna sem ekki er hægt að láta frumvarpið fara hér í gegn á einni viku. Það er af því að svara þarf þeim spurningum sem hv. þingmaður spyr. Eru láglaunastéttir fyrir borð bornar í þessu frumvarpi? Er þetta hagstæðara þeim sem hafa hærri launin en þeim sem hafa lægri launin? Ég get ekki svarað því. Það kemur ekkert fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Ég get því bara ekki svarað því. Ef maður er svona þenkjandi: Já, því gæti ég nú best trúað að verið væri að svína á þeim lægra launuðu, þá vil ég ekki trúa því, virðulegi forseti, ég vil ekki trúa því. Ég vil að þetta sé almennilega gert. Ég vil vera viss um það og vil geta sannfært sjálfa mig um það.