145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það kemur á óvart að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala eins og starfsáætlunin hafi ekkert gildi. Ég velti því fyrir mér nú og í framtíðinni hvort yfir höfuð eigi að vera að eyða tíma í að gera starfsáætlun og prenta hana út. Það er ekki boðlegt að segja: Við sjáum bara til hvernig málum vindur fram. Samkvæmt áætlun er síðasti dagur fimmtudagurinn. Erum við þá að tala um að við ætlum að sjá hvernig málunum vindur fram fram á fimmtudag? Er búið að gefa út nýja starfsáætlun sem ég veit ekki um?

Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti, og mér finnst frekar glatað að þurfa alltaf að koma upp undir þessum lið. En við verðum að fara að fá eitthvert samtal við ríkisstjórnina um það hvernig við ætlum að klára þetta þing. Það er bara þannig. Fólk er komið út um hvippinn og hvappinn í kosningabaráttu. Ég sé til dæmis ekki meiri hlutann hér í þingsal á þessari stundu.