145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gömul saga og ný að við ræðum um hvort nægjanlegt tilefni sé fyrir öllum liðum í fjáraukalagafrumvarpi. Ég vil nú meina að við höfum farið að öllum lögum og reglum um þau efni í þessu tilviki, en það kann að vera að uppi séu einhver sjónarmið um það. Ég vil almennt um það segja að með nýjum lögum um þessi efni breytist umhverfið töluvert mikið með því að við munum skapa varasjóði fyrir ráðuneytin sem þau eiga að geta nýtt til þess að bregðast við óvæntum liðum. Þess vegna er stefnt að því í framtíðinni með varasjóðnum og með heimild til þess að færa innan árs og millifæra í raun og veru milli einstakra málaflokka komi fjáraukalagafrumvörp í þeirri mynd sem við höfum átt að venjast ekki lengur fyrir þingið.

Varðandi önnur mál þá er spurt um Burson-Marsteller samninginn sem er alþjóðlegt almannatengslafyrirtæki sem hefur aðstoðað stjórnvöld. Ég hygg að samningur við það fyrirtæki hafi verið framlengdur á þessu ári eftir að fyrir lá að stjórnvöld væru komin með aðgerðaáætlun út af afnámi hafta sem þyrfti að kynna á erlendri grundu. Ég hef ekki upplýsingar um stöðu á þessari rannsóknarvinnu, en beiðni um sérstaka viðbótarheimild byggir á stöðumati þeirrar vinnu.