145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins innanlandsflugið hér í dag. Mér finnst tímabært að stjórnvöld horfist í augu við það að innanlandsflugið er í reynd almenningssamgöngur landsbyggðarinnar, ekki síst í ljósi þess að vegir landsins bera ekki lengur alla þá þungaflutninga og umferð sem fylgir sívaxandi ferðamannastraumi. Hins vegar er staðan sú að innanlandsflugið er allt of dýr ferðakostur til þess að Íslendingar geti nýtt sér það í þeim mæli sem þyrfti. Þess vegna hefur flugfarþegum fækkað í innanlandsflugi um fjórðung á níu árum á sama tíma og ferðamannafjöldinn hefur þrefaldast. Hins vegar er sannleikurinn sá að flugið er lífæðin við þau byggðarlög sem eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík er miðstöð stjórnsýslu og mikils hluta þjónustu við landsbyggðina, ekki síst heilbrigðisþjónustu, og greiðar samgöngur þarna á milli verða að vera til staðar.

Ef innanlandsflugið væri á viðráðanlegu verði fyrir almenning væri það gjörbylting í búsetumöguleikum fólks á landsbyggðinni og ekki síður fyrir uppbyggingu atvinnulífs. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að erlendum ferðamönnum í flugi skuli aðeins hafa fjölgað um þriðjung þegar fjölgun ferðamanna hefur verið um 150%. Það segir sitt um verðlagið á flugfargjöldunum sem er eins og sakir standa hamlandi þáttur fyrir þróun þessarar þjónustu.

Það er verðugt verkefni fyrir stjórnvöld, sérstaklega í ljósi þess mikla álags sem er á vegum landsins, að leita leiða til að efla þennan þátt í samgöngum okkar, m.a. með því að hafa áhrif til þess að halda verði flugfargjalda niðri.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna