145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota þennan dagskrárlið sem ber nafnið störf þingsins til að ræða um störf þingsins.

Eins og við öll hér inni vitum er síðasti dagur starfsáætlunar Alþingis á morgun. Í gær ræddum við mál sem var til 1. umr., risastórt mál sem fjallar um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og breytingu á þeim lögum. Nú á eftir fer fram atkvæðagreiðsla um nefndarskipan þess máls. Við látum það liggja á milli hluta í þessari umræðu til hvaða þingnefndar málið fer, en engu að síður er alveg augljóst, hvaða ofurnefnd svo sem fær það mál, að ómögulegt er að ljúka svo stóru máli á einum degi.

Við kölluðum mikið eftir því í gær að fá skilaboð um hvaða mál það væru sem hæstv. ríkisstjórn vildi klára á þessu þingi og fá að vita eitthvað um hvert planið væri. Því miður hef ég enga vitneskju fengið um það að nokkuð hafi þokast í þessum málum. Þetta er auðvitað mjög bagaleg staða, því að þótt það sé ýmislegt sem við erum sammála um hvar áherslan eigi að liggja þá liggur ekkert fyrir. Það er auðvitað gott að mörg mál verða einnig á dagskrá í dag, sem eru mál til 2. umr. eða síðari umræðu, það þokar okkur auðvitað áfram í okkar vinnu hér. (Forseti hringir.) En eftir stendur að tíminn er í rauninni hlaupinn (Forseti hringir.) frá okkur. Við verðum því að kalla til hæstv. forseta og hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) um að það komi eitthvað frá þeim um það hvernig ljúka á þessu þinghaldi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna