145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða enn og aftur um matarsóun. Af og til sér maður fréttir og myndir, t.d. á Facebook, þar sem verið er að benda á haugana af matvælum sem er hent, oft úr verslunum. Mér finnst í raun ganga svo ótrúlega hægt í þessu máli. Reyndar er mikið að gerast hvað varðar vitundarvakningu fólks og mikil áhersla á neytendur. En á meðan það er þannig að verslanir og jafnvel framleiðendur geta keyrt mat, sem einhverra hluta vegna hefur ekki verið nýttur, beint á urðunarstað og greitt fyrir það lágt gjald held ég að það gerist ekki mjög mikið. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig það getur verið að það sé dýrara að fara með lífrænan úrgang í moltugerð en að keyra hann í urðun. Við erum land sem er mjög aftarlega á merinni í þessum efnum því að við urðum mjög mikið. Við erum með einhverja landsáætlun en mér finnst þetta ekki vera metnaðarfullt, ég verð að segja það.

Í landsáætlun frá árinu 2013 er tillaga um að urðun úrgangs verði bönnuð frá og með 2021 og sérstakur skattur lagður á urðun. Þetta er tillaga. Þetta ætti bara að vera stefnan. Þetta ættum við hreinlega að fara í, öðruvísi gerist þetta ekki. Þar fyrir utan vitum við í raun ekki hversu mikið magn af mat er hent úr mötuneytum, frá framleiðendum og ég tala nú ekki um verslunum.

Vitundarvakning er góð og gott með það, en það er hægt að kalla eftir þessum upplýsingum. Umhverfisráðherra á náttúrlega strax á morgun að tryggja að urðun á lífrænum úrgangi, urðun á mat, heyri sögunni til. Hún er ekki boðleg. Ef menn ætla að urða matvæli, lífrænan úrgang, fara menn í þar til gerða moltugerð og það verður að vera ódýrara en að fara á urðunarstaðinn. Það verður að vera þannig.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna