145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka góða samvinnu í þinginu í almennum þingstörfum okkar öllum hv. þingmönnum. Hér er vissulega kallað eftir skipulagi þingloka og málum í forgang sem hæstv. ríkisstjórn hyggst klára. Mér finnst það sjálfsögð krafa á sama tíma og mér finnst ekkert óeðlilegt að við sýnum áfram því umburðarlyndi að mörg mikilvæg mál eru búin að vera í vinnslu í nefndum og má alveg færa rök fyrir því að það væri í það minnsta ábyrgt að klára þótt ekki nema væri með skilvirkni þingsins í huga og þá miklu vinnu sem allir þingmenn allra flokka hafa lagt af mörkum. Ég gæti nefnt til sögunnar nokkur af þeim málum sem við öll vitum að vert væri og skynsamlegt að klára, ekki setja í bið og mögulega í einhverja óvissu. En auðvitað kemur alltaf upp sú tilfinning við slíkar aðstæður, á lokametrunum, að reyna að klára sem mest, að tíminn sé að renna úr greipum við að vinna að mikilvægum áherslumálum.

Heilbrigðismálin brenna á fólki. Ég get vísað til kosningasjónvarps RÚV í gærkvöldi, þá voru flestir talsmenn stjórnmálaflokka á því að meira fé þurfi að setja í heilbrigðiskerfið. Ég ætla ekki að andmæla þeirri þörf en það ætti í raun að vera kappsmál að koma í veg fyrir stöðuga útgjaldaaukningu og reyna þá að huga að forvörnum og stórefla aðgerðir á því sviði. Stór hluti sjúkdóma er lífsstílstengdir sjúkdómar og ég hef á þessu kjörtímabili í þrígang lagt fram mál til að efla sjálfboðaliðastarf og mannvirkjagerð í íþróttahreyfingunni, mál sem stuðlar m.a. að líkamlegu og andlegu heilbrigði barna og unglinga, í raun risastórt forvarnamál. Tíminn er vissulega knappur en ég mun (Forseti hringir.) áfram beita mér og berjast fyrir slíkum áherslum.


Efnisorð er vísa í ræðuna