145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[11:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að standa hér og greiða atkvæði um það hvert þetta mál á að fara, hvort það eigi að fara til hv. fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar, því að í þingskapalögum segir í 13. gr. hvert hlutverk fjárlaganefndar er, en það er svo, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallar um fjármál ríkisins, fjárveitingar, eignir ríkisins, lánsheimildir og ríkisábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs.“

Hér erum við að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þess vegna tel ég að þessi atkvæðagreiðsla sé óþörf en geri að tillögu minni að þessu máli verði vísað þangað sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði í umræðunum, enda á málið heima þar. Er það rökstutt hér með þingskapalögum.