145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Áratugum saman hefur uppbygging á mengandi stóriðju verið leiðandi stefna á Íslandi. Menn hafa gengið út frá þeim forsendum að stórar verksmiðjur sem nota ótrúlegt magn rafmagns til þess helst að framleiða ál og nú seinna kísilmálm, að sú uppbygging sé góð fyrir íslenskt samfélag. Vafalaust var það þannig hér árið 1970 að það voru mikil samlegðaráhrif fólgin í því að byggja upp öflugt raflínukerfi fyrir landið allt og að gera það í tengslum við sölu á miklu rafmagni til stóriðju.

Um það deila fáir.

Nú er hins vegar árið 2016, ferðamannaiðnaðurinn er sá iðnaður sem er mest gjaldeyrisskapandi og 80% erlendra ferðamanna koma hingað til lands til að berja augum ósnortin víðerni landsins þar sem mannshöndin hefur ekki enn skilið eftir sig ummerki. Þetta er svo eftirsóknarvert því að það eru fáir staðir í veröldinni sem eiga þessi víðerni enn þá til og þetta verðum við að passa.

Þá eru loftslagsmálefnin orðin svo brýn úrlausnar að næstu tíu ár skipta sköpum í því samhengi og þar verðum við að breyta um kúrs. Það ætti öllum að vera orðið ljóst. Við á Íslandi munum finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga mjög fljótt því að hækkandi hitastig og súrnun sjávar mun hafa hér gríðarleg efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.

Því hefur statt og stöðugt verið haldið fram, m.a. af flokki hæstv. ráðherra, að stóriðjan sé mikilvægasta tannhjól í gangvirki samfélagsins. Til að bjarga byggðum er lausnin að byggja stóriðju. Til að redda atvinnumálum er byggð stóriðja. Iðulega hefur það samt verið svo að við þá uppbyggingu höfum við þurft að flytja inn til landsins hundruð verkamanna því að innlent vinnuafl hefur ekki verið nóg.

En hvað kostar þessi stefna okkar? Stóriðjan fær afslátt af sköttum og gjöldum hjá ríki og sveitarfélögum. Hún borgar t.d. ekki fullt tryggingagjald eins og öll önnur fyrirtæki. Þetta er rökstutt þannig að ekki sé um tekjumissi að ræða heldur sé verið að setja upp hvata fyrir væntum tekjum og umsvifum, að við séum ekki að borga neitt út í hönd fyrir stóriðjuna.

Ekkert er fjær sanni. Það er rétt að stóriðjan borgar ekki en allir aðrir gera það, almenningur með sínu skattfé, almenn fyrirtæki sem þurfa auðvitað að standa skil á öllum sínum sköttum og gjöldum.

Stóriðjan er ekki hér inni í neinu tómarúmi þar sem ekkert kostar. Hún notar rafmagnið sem kostar að virkja, hún notar línulagnir, hún notar vegina, hún notar almannatryggingasjóði o.s.frv. Hún notar þessa innviði en leggur ekki það sama til þeirra og restin af samfélaginu.

Mér leikur hugur á að vita hve mörg hundruð milljarðar það eru sem farið hafa í bein útgjöld af hálfu hins opinbera í áranna rás til handa stóriðju, ekki í formi skattafsláttar heldur í bein útgjöld. Vegir hafa verið lagðir, lagðar raflínur, byggð tengivirki, byggð jarðgöng, byggðar heilu virkjanirnar, byggð hafnarmannvirki og svona get ég haldið áfram, allt í nafni stóriðju.

Við getum staldrað aðeins við virkjunarkostnaðinn. Hæglega má gera ráð fyrir 300 milljónum íslenskra króna við kostnað á uppbyggingu við hvert framleitt megavatt. Þá er bara tekið tillit til virkjunarkostnaðarins. Það þýðir að 300 megavatta virkjun kostar tæplega 100 milljarða íslenskra króna.

Og hvað er á teikniborðinu? Thorsil þarf 78 megavött, Silicor á Grundartanga 80 megavött. Hér hefur verið rætt um áburðarverksmiðjur, 350 megavött, álver í Helguvík, 625 megavött. Svona gætum við haldið áfram.

Landsvirkjun tekur lán fyrir svona framkvæmdum og í því er fjárhagsleg áhætta fyrir skattgreiðendur sem eru eigendurnir. Það væri gott ef ráðherra gæti dregið allan þennan kostnað saman, þó að ég viti að það sé auðvitað erfitt, og svo væri áhugavert að heyra frá honum hve margar krónur hafa skilað sér inn í staðinn fyrir þessi útgjöld.

Einhverjir hafa sagt: Það er ekki lengur stóriðjustefna á Íslandi, við erum að horfa frá henni. Það væri óskandi að það væri satt. Ef við lítum á það sem hefur verið til umræðu hér á þingi var það rætt í fullri alvöru fyrir viku að taka virkjunarhluta rammaáætlunar út fyrir sviga og hleypa honum einum í gegnum þingið en sleppa verndarhlutanum. Til hvers? Jú, vegna þess að hér eru verksmiðjur sem ella færu ekki í gang, verksmiðjur á Grundartanga og verksmiðjur í Helguvík. Þetta er það sem er ráðandi enn eina ferðina á Íslandi. Þessi ríkisstjórn er með stóriðjustefnu og vill virkja fyrir stóriðjuna. Fyrst hún vill það spyr ég að lokum hvort hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) vilji halda Landsvirkjun áfram í ríkiseign og setja fjárhagslegu áhættuna af öllum þessum virkjunum fyrir stóriðjuna á herðar almenningi.