145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál. Ég verð að byrja á að segja að það er reglulega gleðilegt að geta nú stigið það skref við losun fjármagnshafta sem frumvarpið kveður á um. Frumvarpið er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní 2015, en þá var lýst þríþættum aðgerðum til losunar hafta. Við höfum áður í þessum sal fjallað lítillega um aðgerðir fyrstu tveggja skrefanna sem lutu að slitabúum hinna föllnu fjármálafyrirtækja annars vegar og hins vegar að tryggja stöðugleika vegna svokallaðra aflandskróna. Nú er sem sagt komið að þriðja þætti þessarar áætlunar sem beinist að einstaklingum og lögaðilum, innlendum sem erlendum.

Eins og greinir í athugasemdum við frumvarpið eru aðstæður nú til þessa ákjósanlegar í ljósi þess að vel hefur tekist til við hina fyrstu tvo þætti, þ.e. fyrstu tvo þætti aðgerðaáætlunar stjórnvalda. Það er ekki lengur ógn af stórum einstökum áhættuþáttum eins og slitabúum eða aflandskrónum. Nefndin leggur þó áherslu á að mikilvægt sé að framhald við losun hafta verði í skipulegum áföngum og varfærni gætt í hvívetna sérstaklega hvað varðar álag á lausafjárstöðu fjármálakerfisins og greiðslujöfnuð. Með þessu frumvarpi verður þó almenna reglan sú að gjaldeyrisviðskipti einstaklinga verða frjáls nema þau séu sérstaklega bönnuð vegna magntakmarkana. Þetta er mikilvægt, en auðvitað verður að ganga lengra og vonir standa til þess að það verði hægt innan skamms. Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti kemur t.d. fram að gert er ráð fyrir endurskoðun tiltekinna þátta strax á fyrri hluta næsta árs, t.d. hvað varðar fjárhæðarmörk í 6. tölulið a-liðar 1. gr. um fyrirframgreiðslu og uppgreiðslu lána og þar með áframhaldandi losun hafta.

Umfjöllun í nefndinni um málið var mikil og barst nefndinni fjöldi umsagna sem flestar ef ekki allar voru jákvæðar. Allar voru þær gagnlegar. Þótt nefndin hafi getað tekið undir mörg sjónarmið sem hefðu leitt til breytinga á frumvarpinu taldi nefndin ekki rétt að gera það að svo stöddu. Nefndin taldi hins vegar tilefni til að bregðast við fjölmörgum ábendingum og leggur því til breytingar sem liggja frammi á þskj. 1702 og umfjöllun um þær eru í nefndaráliti sem liggur fyrir á þskj. 1701. (Gripið fram í.) Það eru nú alltaf sömu leiðindin í þessum Jóni Gunnarssyni háttvirtum. [Hlátur í þingsal.]

Breytingartillaga við 1. gr. frumvarpsins lýtur að því að draga úr fyrirframgefnu skrifræði í tengslum við mat á því hvort fjármagnshreyfingar séu heimilar samkvæmt 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, en sú grein tiltekur óheimilar fjármagnshreyfingar og gerir frumvarpið ráð fyrir nokkurs konar öfugri sönnunarbyrði, íþyngjandi fyrir þann sem ætlar að hreyfa fjármagn milli landa. Nefndin leggur til að dregið verði úr skyldu milligönguaðila til að tilkynna fyrir fram um fjármagnshreyfingar. Um leið leggur nefndin til að Seðlabankanum sé gert skylt að birta leiðbeiningar sem lúta að þessu. Þá gerir nefndin að tillögu sinni að skýra betur tiltekin hugtök í 1. gr.

Við 2. gr. er breytingartillaga sem lýtur að því að rýmka heimild til kaupa á erlendum gjaldeyri sem keyptur er í þeim tilgangi að greiða upp eða fyrir fram inn á lán í erlendum gjaldeyri. Frumvarpið gerði bara ráð fyrir greiðslu til erlendra aðila. Nefndin leggur til að heimildin nái líka til kaupa vegna greiðslna til innlendra aðila.

Við 10. gr. er breytingartillaga sem kemur til móts við samkeppnissjónarmið að því er varðar heimildir erlendra tryggingafélaga til að taka við iðgjöldum vegna lífeyrissparnaðar eða lífeyristrygginga. Innlend tryggingafélög hafa ekki haft samsvarandi heimild og frumvarpið gerði ekki ráð fyrir breytingum þar að lútandi. Nefndin gerir því tillögu um að innlend tryggingafélög og fjármálafyrirtæki fái möguleika á því að kaupa gjaldeyri vegna kaupa á lífeyrissparnaði og lífeyristryggingum í erlendum gjaldeyri. Nefndin leggur þannig til að einstaklingar geti framselt heimildir sínar til gjaldeyriskaupa til tiltekinna innlendra sjóða á grundvelli samninga um greiðslu iðgjalda til söfnunar lífeyrissparnaðar.

Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að Seðlabanka Íslands verði tryggður víðtækur aðgangur að gögnum og núgildandi heimildir rýmkaðar. Nefndin telur óvarlegt að ganga jafnt langt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu með því að fela Seðlabankanum sjálfdæmi um hvaða upplýsingum hann kallar eftir. Nefndin leggur til að b-liður 12. gr. í frumvarpinu falli brott.

Frá því fjármagnshöftunum var komið á hafa Seðlabankanum verið veittar víðtækar heimildir til eftirlits í þágu fjármálastöðugleika með vísan til almannahagsmuna. Nefndin telur mikilvægt að breyta 12. gr. með þeim hætti að þagnarskylda eigi almennt við nema í tilviki annarra stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja. Nefndin tekur undir sjónarmið sem fram koma í umsögnum um að rétt sé að innlend fjármálafyrirtæki verði undanþegin 2. málslið d-liðar 12. gr. frumvarpsins þannig að millifærslur á milli gjaldeyrisreikninga innlendra fjármálafyrirtækja falli hvorki undir vænta tilkynningarskyldu né heldur millifærslur viðskiptavina af eða á gjaldeyrisreikninga innlendra fjármálafyrirtækja. Nefndin telur rétt að dregið verði úr skyldu innlendra aðila til að tilkynna Seðlabankanum um fjármagnshreyfingar þeirra á milli í erlendum gjaldeyri. Nefndin leggur því til breytingu í samræmi við tillögu ráðuneytisins þess efnis að tilkynningarskyldan takmarkist við fjárhagslegar skuldbindingar milli innlendra aðila í erlendum gjaldeyri, svo sem lánaviðskipti, ábyrgðarskuldbindingar, afleiðuviðskipti og útgáfu skuldabréfa og annarra skuldagerninga.

Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að gildandi heimildir bankans til upplýsingaöflunar verði rýmkaðar verulega á þann veg að þær taki einnig til fjármagnshreyfinga milli landa en ekki eingöngu gjaldeyrisviðskipta. Auk þess er gert ráð fyrir breytingu í 16. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir auknum heimildum Seðlabankans til upplýsingaöflunar til þess að bankinn geti stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika í samræmi við hlutverk sitt.

Nefndin tekur undir ýmis sjónarmið sem fram komu í umsögnum m.a. um að ekki skuli auka eftirlitsheimildir stjórnvalda gagnvart einstaklingum umfram það sem nauðsynlegt er og að undangengnu hagsmunamati. Við slíkt hagsmunamat þurfi að vega og meta hvort nauðsynlegt sé að skerða stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs í þágu fjármálastöðugleika. Einnig var bent á að þær breytingar sem lagðar eru til við 16. gr. frumvarpsins gengju of langt þar sem ekki er mælt um fyrir rökstuðning fyrir því að afnema trúnaðarskyldu almennt. Loks var velt upp því sjónarmiði hvort þörf væri á að Seðlabankinn safnaði svo umfangsmiklum upplýsingum um einkahagi almennings og fyrirtækja og hvort hugsanlega færi betur á því að Seðlabankinn hefði heimild til að kalla sérstaklega eftir afmörkuðum upplýsingum við rannsókn ákveðinna mála eða þegar grunur vaknaði um að fjárhæðarmörk hefðu ekki verið virt.

Nefndin bendir á í þessu sambandi að eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu sé nauðsynlegt að veita Seðlabankanum ákveðna heimild til að stuðla að fjármálastöðugleika og tryggja þannig almannahagsmuni. Fyrir liggur að þær upplýsingar sem um er rætt gera bankanum kleift að meta hverju sinni greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins og gera spár þar að lútandi sem eru undirstaða greiningar á kerfisáhættu á hverjum tíma. Mat á kerfisáhættu sýnir þörf á beitingu varúðartækja til að minnka uppsöfnun á kerfislegri áhættu. Sem dæmi má nefna að fjármagnsinnflæði í aðdraganda hrunsins 2008 var að verulegu leyti drifið af beinum lánveitingum til fyrirtækja í erlendum gjaldeyri. Seðlabankinn hafði á þeim tíma hvorki upplýsingar né gögn sem vörpuðu fram skýrri mynd af lántökum eða gjalddögum sem voru yfirvofandi. Þegar kreppan skall á reyndist erfitt að endurfjármagna lán erlendis og tóku innlendir bankar að miklu leyti yfir þessar lántökur með tilheyrandi áhættu á fjármálaáfalli innlends fjármálakerfis sem síðan varð að veruleika haustið 2008. Að mati nefndarinnar eru miklir almannahagsmunir undir við losun haftanna og því nauðsynlegt að Seðlabankinn búi yfir upplýsingum og gögnum til að greina kerfisáhættu og geti þannig gripið til viðeigandi varúðarráðstafana ef þörf krefur með beitingu varúðartækja til að stuðla að fjármálastöðugleika.

Nefndin telur rétt að heimildir Seðlabankans verði settar fram á skýrari hátt en gert er í frumvarpinu. Nefndin mælir því með að heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar samkvæmt 1. tölulið 16. gr. frumvarpsins verði takmörkuð við upplýsingar frá lögaðilum og nái eingöngu til upplýsinga um eignir og fjárhagslegar skuldbindingar í erlendum gjaldeyri, svo sem beinar fjárfestingar, verðbréfafjárfestingar, aðrar fjárfestingar í framseljanlegum fjármálagerningum, lánaviðskipti, ábyrgðarskuldbindingar, afleiðuviðskipti og útgáfu skuldabréfa og annarra skuldagerninga. Þá er rétt að breyta 16. gr. á þann veg að þagnarskylda eigi almennt við, nema í tilviki annarra stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verið samþykkt með breytingum sem lagar eru fram á sérstöku þingskjali.

Willum Þór Þórsson og Valgerður Bjarnadóttir skrifa undir álitið með vísun í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgitta Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi styður málið.

Undir þetta rita Frosti Sigurjónsson, formaður, Sigríður Á. Andersen, Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Katrín Jakobsdóttir með fyrirvara, Valgerður Bjarnadóttir með fyrirvara og Guðmundur Steingrímsson.