145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alveg sömu áhyggjur af þessum málum og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég tel að þingið hafi gengið of langt í vor með breytingunum um losun hafta varðandi upplýsingaöflun og úrræði Seðlabankans. Við erum hins vegar í mjög sérstakri stöðu með þetta mál. Það eru slíkir hagsmunir undir varðandi fjármálastöðugleika og efnahagsstjórn og greiðslujöfnuð og annað sem viðkemur þessu máli og við losun hafta má ekki gera nein mistök. Það má ekki gera nein mistök. Þess vegna tek ég varfærin skref í þessu. Það eru slíkir almannahagsmunir undir að við erum að reyna að tryggja að ekkert fari úrskeiðis. Þá teljum við rétt að Seðlabankinn hafi talsvert meiri úrræði en við helst mundum vilja. En það er líka hugsað sem tímabundið ástand meðan á þessu ferli stendur. Ég vonast til þess að þetta verði síðan lagfært og ég vona að við breytum lögunum frá því í vor varðandi þau úrræði sem Seðlabankinn hefur þar. Ég tel mikilvægt að við höfum alltaf í huga þetta mikilvæga atriði, friðhelgi einkalífs og persónuverndina, og göngum aldrei lengra en nauðsynlegt er.

Ég vil minna á að þótt Seðlabankinn hafi þessi úrræði er hann samt alltaf bundinn af meginreglu stjórnsýslulaga um meðalhófið, að ganga aldrei lengra en nauðsynlegt er. Við megum ekki gleyma því. Ég veit að mörgum finnst að Seðlabankinn hafi farið illa með þetta vald í gegnum tíðina og þess vegna eru menn mjög skeptískir yfir höfuð að veita honum þetta vald, en við (Forseti hringir.) verðum að tryggja að ekkert fari úrskeiðis þegar svona miklir hagsmunir eru undir.