145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áhyggjur mínar stafa ekki af því hvernig Seðlabankinn fer með gögnin eða hvernig hann nýtir þau. Meira að segja eru áhyggjur mínar ekki aðallega þær að hann hafi ekki gagn af þessum gögnum eða ekki þörf á þeim. Áhyggjur mínar snúa að því að þetta er bara ofboðslega mikið af gögnum. Segjum að við værum að tala um kjarnorkuver og einhver segir: Já, en við þurfum bara svo mikla orku. Já, við þurfum mikla orku, en það er samt hætta til staðar. Allir standa sig vel og gera sitt besta, en það er samt hætta til staðar. Þegar um svona mikla upplýsingasöfnun er að ræða, hversu nauðsynleg sem hún er, þá hef ég mestar áhyggjur af gagnaleka því að það þarf engin sérstök mistök til að hann eigi sér stað. Gagnaleki á sér stað vegna þess að tölvutækni er flókin. Það eru milljónir hakkara úti í heimi sem sinna alls konar hagsmunaaðilum, öllum þeim hagsmunaaðilum sem geta yfir höfuð skipulagt sig. Jafnvel þótt allir standi sig með stakri prýði, beiti meðalhófi við hvert fótmál og noti einungis þau gögn sem þörf er á sýnist mér samt sem áður umfangið vera þannig að þarna hljóti að vera hræðilegt magn af upplýsingum.

Sömuleiðis verð ég að bæta því við að ég hef pínulitlar áhyggjur af meðalhófinu vegna þess að ég er ekki viss um að það sé augljóst fyrir fram hvað sé meðalhóf þegar kemur að því að safna upplýsingum. Til að koma auga á ógn við fjármálastöðugleika þarf það væntanlega að sjást í gögnum sem þegar eru komin til og þar af leiðandi þarf alltaf að safna meiri gögnum en kemur í ljós eftir á að hafi verið nauðsynlegt. Það er ekkert endilega nauðsynlegt fyrir fram.

Allar meginreglur um meðalhóf eru að sjálfsögðu grundvallaratriði og ekkert valkvæðar, ég átta mig á því. Það er hins vegar ekki nóg til að taka fyrir eða útiloka hættuna sem skapast. Hættan verður til staðar sama hversu nauðsynlegt það er að framkvæma það sem veldur hættu. Það er það sem ég er að segja.