145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Nú ræðum við í 2. umr. um losun fjármagnshafta. Nú er tekið eitt skref enn á þeirri leið að afnema gjaldeyrishöft sem voru sett seinni hluta árs 2008, síðan voru þau hert haustið 2009, ef ég man rétt. Við í Samfylkingunni höfum tekið undir og fylgt ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili líka í þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið til að við losnum úr gjaldeyrishöftum. Þetta er náttúrlega mál sem menn töluðu um í apríl síðastliðnum, þegar fólk missti trú á stjórnmálin og kom saman á Austurvelli og krafðist kosninga í vor. Við í Samfylkingunni tókum undir það, við vildum láta kjósa í vor, en þá sögðu menn að við þyrftum að halda áfram að afnema höftin og þess vegna væri það ekki hægt. Síðan afgreiddu menn frumvarp í júní, og síðan tökum við þetta frumvarp núna. Ég held að framganga stjórnarandstöðunnar og okkar í Samfylkingunni varðandi þessi mál sýni að þó að skipt verði um ríkisstjórn muni það ekkert stoppa það að haldið verði áfram á þessari leið.

Ég vil í rauninni taka undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. En fram kom í nefndinni að nauðsynlegt væri að tímasetja næstu skref í afnámi hafta, vegna þess að þetta hér er bara eitt skref í því. Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að óþarfi er að gera það núna, þannig að ég tek ekki undir þau sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni um að nauðsynlegt væri að tímasetja næstu skref.

Sagt er að það skref sem nú er tekið muni auðvelda mjög líf almennings í landinu sem hafi búið við gjaldeyrishöft. Nú er það reyndar þannig að mikill meiri hluti fólks í landinu hefur út af fyrir sig ekki orðið var við það beinlínis að hér væru gjaldeyrishöft. Þegar ég segi það, þá á ég ekki við að það skipti engu máli að gjaldeyrishöft séu, ég er bara að segja að það eru fleiri en færri sem hafa ekki orðið fyrir sérstökum vandkvæðum út af gjaldeyrishöftum.

Vissulega er það þannig að almenningur sem hefur verið í einhverjum litlum viðskiptum við útlönd, sem eru ekki af mikilli stærðargráðu, hefur þurft að eiga í viðskiptum við útlönd, hefur þurft að bíða lengi til að fá það sem maður mundi kalla eðlilega fyrirgreiðslu. Hefur kannski þurft að bíða allt upp í átta vikur eftir því að flytja yfir 100 þúsund eða 50 þúsund kall, eitthvað svoleiðis. Við hljótum öll að fagna því að geta losað um það. Það er náttúrlega líka kominn góður tími á að opna meira fyrir það að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest erlendis vegna þess að ekki er gott að lífeyrissjóðirnir með sína þörf fyrir fjárfestingu, því að lífeyrissjóðirnir þurfa vissulega að fjárfesta til að ávaxta það fé sem þeir eru ábyrgir fyrir, þurfi að binda það svo mjög við fjárfestingar á Íslandi eins og verið hefur, því að það er betra að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni ef sú karfa skyldi nú velta um koll.

Þetta er ánægjulegt, hægt er að nota það orð, það er ánægjulegt að við tökum þetta skref hérna.

Mig langar samt aðeins í framhjáhlaupi að minnast á umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem barst nefndinni. Í þeirri umsögn kemur fram að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur að það hafi verið óþarfi að hafa gjaldeyrishöftin svo lengi sem þau hafa verið. Hún færir rök fyrir því að þeir sem búa við höft af þessu tagi en vilji komast fram hjá þeim finni alltaf leið til að komast fram hjá þeim. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bendir líka á að þeir erlendu aðilar sem hér hafa verið með peninga, eða evrur, hafi getað komist út í útboðum Seðlabankans sem hefur samt ekki verið sú þátttaka í sem menn hefðu kannski vonast til. Síðast þegar útboðið var í júní síðastliðnum þá var mun minni þátttaka í því en menn höfðu vonast eftir, og það sýnir náttúrlega að ekki er mikil ásókn þessara erlendu aðila sem hér eru með peninga í að komast úr landi með þá. Umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er fróðleg og vakti mig til umhugsunar. Það er samt ekki hennar vegna sem ég skrifa undir með fyrirvara, ekki þess vegna, og segi að það eigi að fara að ráðum hennar og afnema höftin í einu lagi. Ég er nú ekki svo köld, virðulegi forseti.

Fyrirvari minn við nefndarálitið snýr að upplýsingunum eða þeim upplýsingum sem Seðlabankinn getur safnað. Það er nú ágætt að búið er að afmarka það. Ég segi það samt að mér finnst svolítið mikil taugaveiklun í gangi með að Seðlabankinn hugsanlega misfari með þessar upplýsingar. Það gilda náttúrlega lög um persónuvernd í landinu og allar þær heimildir sem eru veittar, og verður sú stofnun, í þessu tilfelli Seðlabankinn, sem ætlar að nýta sér heimildir til eftirlits að fara að lögum um persónuvernd og má ekki nota þær upplýsingar sem hún safnar nema fara eftir lögum um persónuvernd og gæta meðalhófs og að það séu almannahagsmunir sem krefjist þess að hún safni upplýsingum eða noti þær.

Fyrirvari minn er eiginlega um það að mér finnst óþörf taugaveiklunin gagnvart því, og kom fram í nefndinni, að hugsanlega misfari stofnanir með heimildir af þessu tagi.

Mér fannst líka fróðlegt að heyra og ætla að koma aðeins inn á það af því að ég hef tíma, virðulegi forseti, þ.e. það mál sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom með áðan að ef safnað er of miklum upplýsingum eða miklum upplýsingum er hætta á því að hakkarar eða einhverjir geti komist í þær. Það er náttúrlega ekki gott.

Mig rak allt í einu minni til þess þegar var verið að ýta skuldaleiðréttingunni miklu úr höfn að þá voru samþykktar hér heimildir fyrir Hagstofuna, minnir mig, til að safna alveg gífurlega miklum upplýsingum um heimilin í landinu, ekki um einhverja mikla fjárfesta, heldur bara um okkur öll. Þetta var rætt töluvert hér. Ég man að ég sá ekki þörfina á því vegna þess að ég held að í hinum almennu hagtölum og upplýsingum sem eru til staðar hefði þessi mikla upplýsingaöflun verið óþörf. Ég greiddi því atkvæði gegn henni.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér: Hvar eru öll þessi gögn núna? Þau voru aldrei notuð, það var aldrei minnst á þau þegar hin mikla skuldaleiðrétting, sem svo var kölluð, var framkvæmd og miklir peningar runnu til fólks sem ekki þurfti beinlínis á þeim að halda. Mig minnir að þau hafi aldrei verið notuð. Ég velti fyrir mér: Þarf ekki eitthvað að endurskoða það ef menn eru að segja hérna að endurskoða þurfi mjög fljótlega þessar heimildir til Seðlabankans til að safna upplýsingum, eins og fram kemur í frumvarpinu? Ættum við þá ekki að velta fyrir okkur hvort þurfi ekki að taka upp þá löggjöf um alla upplýsingaöflunina um heimilin í landinu sem leyfð var við undirbúning að hinni miklu skuldaleiðréttingu?

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa þetta lengra. Við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið og vonandi verður hægt að halda áfram og taka fleiri skref á næstu mánuðum. Vonandi verðum við laus við einhver gjaldeyrishöft innan skamms. Hins vegar held ég að það verði þannig að á meðan við erum með íslensku krónuna þá verði alltaf einhvers konar höft í gangi. Það verði alltaf einhvers konar höft, en þeim mun minni, þeim mun betra. Það er krónan, það er þessi litli gjaldmiðill sem er eins og korktappi, sem veldur því að alltaf verða einhverjar stífar reglur og hættan felst í því.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og hef lokið máli mínu.