145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki andsvari við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem talaði áðan. Ég hefði viljað fara í andsvar við hana en hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir vakti máls á sama atriði sem mig langar að spyrja út í og varðar upplýsingasöfnun, 12. gr. Það eru til lög um Persónuvernd og það er auðvitað meginreglan um meðalhóf, síðan er 71. gr. stjórnarskrárinnar og allt það.

Ég fullyrði að slíkar lagalegar varúðarráðstafanir eru ekki nóg til að passa að vel sé farið með gögn. Þetta er í raun og veru lágmarkið. Það kom mjög skýrt í ljós og hefur komið oft í ljós í sambandi við Persónuvernd, sem ég skal segja að er ein mín uppáhaldsstofnun í allri stjórnsýslunni, ein af þeim alla vega, að það er í raun og veru lagaskrifstofa, það er í raun og veru stofnun sem sér um að skoða lagalega hlið málanna en ekki gildisspurningarnar í kringum persónuverndina og friðhelgina og allt það, það er hlutverk okkar hérna. Þótt fólk fari vel með gögn og svoleiðis hjá Seðlabankanum og víðar, sem ég er viss um að fólk gerir eftir fremstu getu, þá er samt sem áður alltaf hætta á því að gögn fari á kreik. Þarna eru óneitanlega alveg gríðarmiklar upplýsingar, ekki bara um einhverja stóra aðila, ekki bara um banka, þarna eru gríðarlega miklar upplýsingar um allt, eða kannski ekki allt en langflest sem varðar fjárhagsstöðugleika. Þar sem fjármálastöðugleikinn er svo mikilvægur og peningar og viðskipti svo ríkur þáttur af mannlegri menningu, þá segir það sig sjálft að á meðan við þurfum þessar eftirlitsheimildir eða upplýsingaheimildir verður það meira en góðu hófi gegnir vegna þess að við erum með krónuna og erum svo brothætt hagkerfi, eins og hv. þingmaður fór inn á. Þess vegna furða ég mig á því að hv. þingmanni finnist vera of mikil taugaveiklun (Forseti hringir.) í kringum þessa upplýsingasöfnun, vegna þess að það hlýtur að liggja fyrir að hún er miklu meiri en við mundum vilja.