145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Treystir hv. þingmaður segjum leyniþjónustu Bandaríkjanna eða leyniþjónustu Bretlands eða rússnesku mafíunni eða rússneskumælandi mafíum öllu heldur? Þetta er raunveruleg hætta. Það er raunveruleg hætta á því að þessi gögn fari á kreik og séu misnotuð, ekki af Seðlabankanum sjálfum heldur öðrum. Það er raunveruleg hætta, eins og dæmin hljóta að hafa sýnt síðastliðin ár. Það þýðir ekkert að láta eins og hún sé ekki til staðar, hún er til staðar og er mjög raunveruleg, hún er yfirþyrmandi og stöðug.

Það er alveg dæmigert, reyndar eiginlega reglan, að þegar atburðir verða eins og hrunið 2008, hryðjuverkaárásin í New York 2001 eða eitthvað því um líkt, einhver stórslys, einhver hryllingur, þá bregðast yfirvöld gjarnan við með því að veita heimildir til að gera hluti sem maður mundi að öðrum kosti ekki vilja. Maður mundi almennt ekki vilja að lögreglan þyrfti ekki leitarheimild. Maður mundi almennt ekki vilja að þúsundir manna væru handteknar og tvísýnt hvort viðkomandi fengi réttlát réttarhöld, sem dæmi. Það eru svona hlutir sem gerast þegar fólk er að reyna að forðast hið ógurlega, hið hræðilega, það sem við eigum öll að vera hrædd við. Í þessu tilfelli er það hrunið. Þá er hætt við því að í ákveðinni taugaveiklun — talandi um taugaveiklun — förum við að veita of miklar heimildir. Sú hætta hlýtur að vera raunveruleg. Ég held ef við nálgumst viðfangsefnið með því viðhorfi að við eigum einfaldlega að gera það sem þarf þá gleymum við að gera það innan þeirra marka sem mannréttindi og lýðræðisgildi almennt kveða á um að við eigum að gera. Það er verkefni okkar á þinginu. Það er ekki Persónuvernd eða Hæstiréttur eða Seðlabankinn eða einhver annar sem á eftir að passa það að gildismat okkar sé með fókusinn á þau gildi þegar við erum að bregðast við svona spurningum. Það erum við sem þurfum að takast á við þá spurningu.

Auðvitað eru ríkar ástæður fyrir því að gera þetta. Ég er ekki að draga úr því. Ég held að þessar heimildir séu sennilega nauðsynlegar. Ég er bara að benda á að það fylgja þeim samt hættur, jafnvel þó að maður treysti Seðlabankanum, jafnvel þó að maður telji þetta nauðsynlegt.