145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa kennslustund. Ég hélt að ég hefði sagt í ræðu minni áðan að mér fyndust vangaveltur hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar fróðlegar og góðar um að hægt sé að misnota þær upplýsingar sem safnað er, að hakkarar geti komist í þær og þar fram eftir götunum. Þetta sagði hann í andsvari við hv. þm. Brynjar Níelsson áðan og ég sagði í ræðu minni að mér hefðu þótt þetta fróðlegar og alveg réttar vangaveltur. Auðvitað er hægt að misfara með svona. Ég var hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að samkvæmt mínu gildismati og samkvæmt því sem er í þessum lögum tel ég að fólk sé óþarflega taugaveiklað út af því. Þingmanninum getur fundist ég vitlaus, (HHG: Alls ekki.) það er allt í lagi, en þetta er mín skoðun. Ég þakka kennslustundina.