145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér kemur fram. Ég held að það sé rétt að fara þess á leit við forseta nú að afloknum þingflokksfundum á þessum næstsíðasta degi þingsins fyrir kosningar miðað við gildandi starfsáætlun, að hann greini okkur frá því hér hver áformin séu, hvort fyrir liggi hvaða mál það eru sem við eigum að taka fyrir og ljúka afgreiðslu á í dag og á morgun. Tíminn er útrunninn og við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um að forseti hyggist taka utan um þá stöðu. Hann talaði um það í gær að ná þyrfti utan um verkefnið, hann orðaði það þannig. Hann jafnvel talaði um að höggva á hnútinn. Það var ýmiss konar orðfæri sem hann notaði um þá stöðu sem upp er komin. Ég held að það blasi við öllum að við verðum að fara að ná utan um það hvað stendur til á allra næstu dægrum.