145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum nokkuð sammála um þetta í öllum aðalatriðum og sammála um að þetta frumvarp sé ekki bara gott heldur jafnvel nauðsynlegt við núverandi aðstæður. Ég held að við séum sennilega sammála um það líka að það er mikill vandi í svona litlu efnahagskerfi með sjálfstæða mynt að halda stöðugleika, missa ekki tökin. Það þarf svo lítið til að raska. Þess vegna er svo mikilvægt að við höfum úrræði til að bregðast við og getum brugðist skjótt við. Auðvitað er stjórn efnahagsmála alltaf svoleiðis að við erum, eins og ég sagði áðan, að elta svolítið skottið á okkur, bregðast við einhverjum aðstæðum. Kannski er mesti vandinn hjá okkur núna að helstu viðskiptalönd okkar í Evrópu eru nánast í lamasessi enn þá, sem gerir okkur erfitt fyrir með viðskipti okkar. En (Forseti hringir.) við verðum að halda áfram vöku okkar og hafa þau úrræði sem nauðsynleg eru til að bregðast við.