145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég dreg einfaldlega þær ályktanir af yfirlýsingu forsætisráðherra um að hann ætli að tala við forustu stjórnarandstöðunnar að hann sé að tala við formann Framsóknarflokksins því að ekki er hann að tala við formenn hinna formlegu stjórnarandstöðuflokka. Eins og við vitum öll er ein öflugasta stjórnarandstaðan í landinu, hana er nú að finna hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra.

Hér ganga síðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins um gangana og segja: Það er bara best að fresta þessu þingi fram í næstu viku því að hér mun ekkert gerast hvort sem er og engar ákvarðanir verða teknar fyrr en eftir flokksþing Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin er óstarfhæf, forsætisráðherrann þorir ekki að taka af skarið og getur það ekki út af samkeppninni við fyrrverandi forsætisráðherra. Auðvitað er þinginu enginn sómi að því að halda þingstörfum áfram þegar enginn veit hvað ríkisstjórnin raunverulega vill. Ráðleysið er algert. Hér eru einn eða tveir þingmenn úr stjórnarliðinu, ýmist, ef einhver er á annað borð í þingsal, til að ræða afnám hafta, (Forseti hringir.) hvorki meira né minna, sem átti nú að vera stóra málið sem ríkisstjórnin ætlaði að starfa áfram um. Þetta er þinginu ekki samboðið. Forseta ber að hætta að halda þingfundi (Forseti hringir.) við þessar aðstæður þar til ríkisstjórnin kemur með forgangslista.