145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það verður að gera þá athugasemd við ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar að auðvitað snýst þetta að hluta til um okkur, þá sem hér starfa. Vandinn sem er upp kominn er náttúrlega sá að þær yfirlýsingar halda ekki sem stjórnarforustan hefur gefið um þinghaldið og um það með hvaða hætti málum væri skipað hér. Aftur og aftur. Ekki er að að marka þau fyrirheit sem forustumenn stjórnarflokkanna gefa í þeim efnum. Þær dagsetningar sem lagðar eru niður, þær áætlanir sem gerðar eru. Það er þannig á þinginu eins og í öðrum mannlegum samskiptum að það er mikilvægt að orð manna standi og að treysta megi því sem (Forseti hringir.) handsalað er eða lagt niður af áætlunum og dagsetningum í því efni. Forsetans er að fylgja því eftir.