145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu sem endranær. Hv. þingmaður fór hér aðeins yfir forsöguna að hruninu og mér þótti áhugavert að minnast hennar vegna þess að þótt ég hafi bara verið óbreyttur borgari þá, vonandi háttvirtur, man ég mjög vel eftir því hversu galið það var. Hv. þingmaður fór aðeins yfir yfirstjórn Seðlabankans. Ég man þegar fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, varð seðlabankastjóri. Þá skellti ég upp úr. Mér þótti það svo galið, ekki út af persónu mannsins, ekki einu sinni út af stjórnmálaskoðunum hans eða því sem hann hafði gert í pólitíkinni, heldur vegna þeirrar staðreyndar að hann var umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður á Íslandi sennilega síðan á Sturlungaöld — það mætti færa alla vega rök fyrir því. Það býr til vandamál að setja slíkan mann á toppinn á Seðlabankanum, tortryggnisvandamál erlendra aðila í það minnsta og það vakti vissulega alla vega tortryggni hjá þeim sem hér stendur gagnvart því að viðkomandi aðili væri heppilegur til þess að stýra batteríi eins og Seðlabankanum. Síðar meir varð hann ritstjóri Morgunblaðsins, sem er ekki minna fyndið að mínu mati af sömu ástæðum.

Á þessum tíma var þetta náttúrlega galið. Það var galið hvernig fór með efnahaginn hérna, sú hugmynd var galin að við værum á einhvern hátt sérstakir snillingar í fjármálum. Hið gagnstæða kom á daginn. Ég velti fyrir mér þegar ég heyri ræður eins og þessa ágætu ræðu hv. þingmanns: Höfum við lært eitthvað af þessu? Hefur Ísland sem samfélag og sem stjórnkerfi lært eitthvað? Verður þetta öðruvísi í framtíðinni? Erum við núna allt í einu komin með þetta allt á hreint þegar við erum komin með helling af ferðamönnum til að halda okkur uppi? Eða getum við búist við því að í framtíðinni munum við gera ef ekki sömu þá sambærileg mistök?