145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmanni er mjög hlýtt til Evrópusambandsins, en það breytir ekki staðreyndum málsins. Við erum að tala um öryggisreglur sem eru nákvæmlega eins í hverju einasta landi. Hvaða barn sem kæmi að þessu mundi komast að þeirri niðurstöðu að lyf sem fer í gegnum norsku lyfjastofnunina ætti að vera hægt að selja hér. Það er bara ekki hægt út af reglum Evrópusambandsins. Hv. þingmaður verður bara að lifa með því að það eru lobbýgrúppur í Brussel sem hafa fengið sitt í gegn til þess að hægt sé að selja þetta á hærra verði hér en í öðrum löndum. Svo einfalt er það. Ég þekki þetta mál prýðilega vegna þess að ég fór í það sem ráðherra, náði þó að lækka lyfjakostnaðinn um milljarða. Þetta var erfiðast. Ég var á gráu svæði þegar ég breytti reglugerðum, fullkomlega meðvitaður um það, eftir að ég var búinn að tala við framkvæmdastjóra, tvo framkvæmdastjóra í Evrópusambandinu um málið. Það lá alveg fyrir að við yrðum að fara eftir reglunum. Þegar ég breytti t.d. reglugerðinni um fylgiseðlana þá töldu sérfræðingarnir að ég væri í raun á mjög gráu svæði. En það er dæmigerð tæknileg viðskiptahindrun sem er sett með reglum ESB í þessu máli eins og mörgum öðrum, menn eru að gæta hagsmuna stóru fyrirtækjanna. Þeir sem borga er fólkið. Hv. þingmaður getur verið ofsalega sár og svekktur yfir að ég segi þetta, en þetta er staðreynd. Síðan getum við farið yfir það hvernig menn fara misjafnlega eftir reglum. Mér sýnist ESA fylgja því mun fastar eftir að við förum eftir bókstafnum en lönd sem eru innan Evrópusambandsins. Það væri gott að fara yfir það í þessum sal eða einhvers staðar annars staðar.