145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er nefnilega hárrétt. Það gilda sömu öryggisreglur um lyf hér á landi og t.d. í Danmörku. Þess vegna er ekkert nema íslensk túlkun og íslenskar reglur sem gera það að verkum að við getum ekki notað markaðsleyfi frá Danmörku, það er bara okkar túlkun. Það var t.d. komið á sérstakri Evrópuskráningu lyfja, þau eru ekki skráð í einstökum löndum heldur eru þau skráð á Evrópumarkaði. En Ísland segir að það þurfi að skrá þau hér sérstaklega. Þetta eru ekki lobbýistagrúppur, lyfjafyrirtækin vinna ekki bara í Brussel, þau vinna hér á landi. Ég hef sagt það áður í þessum stól að ekkert hefur komið mér jafn mikið á óvart í mínum störfum, og hefur þó margt komið mér á óvart eins og t.d. hér í þinginu, og það hvernig íslensku lyfjafyrirtækin passa upp á það að íslenski markaðurinn sé einn og lítill þannig að þau geti haldið hér uppi allt of háu lyfjaverði.