145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langaði að vekja athygli á máli sem þingflokkur Bjartrar framtíðar lagði fram á sínum tíma og fjallar um afnám 5. gr. laga um Kristnisjóð. Ástæðan fyrir að ég nefni það er sú að ég skrifaði sjálfur frumvarp með greinargerð sem mér þótti frábær og þykir enn. Ég lagði það fram og var ægilega kátur með málið þegar mér var tjáð að þingflokkur Bjartrar framtíðar hefði þegar lagt þetta fram á því þingi. Ég velti því fyrir mér í dágóðan tíma hvort ég vildi leggja það fram líka. Það má sum sé leggja fram sama frumvarp tvisvar. Mér þótti það auðvitað kjánalegt eins og sjálfsagt fleirum, en ákvað þegar fram liðu stundir að mig langaði að eiga það á þingskjölum, mig langaði að eiga þetta frumvarp. Mér fannst greinargerðin vera mikilvæg skilaboð svo ég lagði það fram en ekki með þeim ásetningi að fá það á dagskrá heldur til að skilja það eftir í þingskjölum. Og ef málið yrði sett á dagskrá mundi ég frekar styðja að þingmál Bjartrar framtíðar færi á dagskrá, enda þarfaþing mikið og hvet ég alla til að lesa báðar greinargerðir (Gripið fram í.) til að sjá hversu mikilvægt þetta mál. Ég vona að lokum að málið verði afgreitt á næsta kjörtímabili.


Efnisorð er vísa í ræðuna