145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á þetta mál sem hér er til umræðu, þ.e. frumvarp til laga um opinber innkaup, og gera grein fyrir fyrirvara okkar í minni hlutanum, eða mínum allavega, sem snýr fyrst og fremst að viðmiðunarfjárhæðum. Það er það sem sveitarfélögin hafa verið að gagnrýna og ekki bara Reykjavíkurborg þó að þetta snerti hana mest, augljóst er að Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið. Þess vegna koma þær fjárhæðir sem um ræðir mest við það sveitarfélag. En Samband íslenskra sveitarfélaga hefur líka fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu skilað inn umsögn og er í meginatriðum hlynnt málinu en hafnar í raun þessum viðmiðunarfjárhæðum og hvenær aðilar eru útboðsskyldir innan lands eins og kemur fram í þriðja kaflanum.

Sambandið minnir á að samkvæmt núgildandi lögum ber öllum sveitarfélögum að setja sér innkaupareglur og Sambandið gerði á sínum tíma sjálft ramma utan um það sem mörg sveitarfélög hafa tekið sér til fyrirmyndar en önnur svo sett sínar eigin reglur. Þetta er inngrip í sjálfsstjórnar- og ákvörðunarvald sveitarfélaganna, sem hér er gagnrýnt, og mér finnst mikilvægt, og ekki einungis það heldur hefur þetta líka í för með sér aukinn kostnað því að það er annað sem líka er lagt til, ekki bara þessar samræmdu viðmiðunarfjárhæðir, heldur um leið verða sveitarfélögin þá jafn sett ríkinu og stofnunum þeirra og þá gagnvart kærunefnd útboðsmála. Bæði Sambandið og Reykjavíkurborg fullyrða að það muni hafa í för með sér töluvert aukinn kostnað vegna kaupa á sérfræðiþjónustu vegna þess að fleiri útboð á vegum sveitarfélaga þurfa að fara í gegnum þetta ferli. Á það er minnt að sveitarfélögin eru, eins og við þekkjum, bæði stór og misjöfn og verkefni þeirra líka, minnt á að þau fái þetta svigrúm til að kaupa grunnþjónustu í sveitarfélögum sínum. Þetta er auðvitað tvíbent. Ég velti þessu fyrir mér. Stundum er talað um að verið sé að hygla einum og öðrum í sveitarfélögum og sérstaklega þeim minni á meðan aðrir vilja líta á sem svo að verið sé að styðja við atvinnurekstur innan sveitarfélaganna.

Þeir möguleikar sem hér eru settir þrengja tækifæri litlu sveitarfélaganna sérstaklega. Það er mikilvægt að hafa í huga að þær breytingar sem lagðar eru til vegna þessarar tilskipunar Evrópuþingsins, þ.e. varðandi viðmiðunarfjárhæðirnar, eru í sjálfu sér ekki í tilskipuninni sjálfri. Þetta eru ekki breytingar sem þarf að fara í, þ.e. að fella sveitarfélögin undir það vegna aðildar Íslands að EES. Það er bara pólitísk ákvörðun að gera það.

Ég hefði viljað láta á þetta frumvarp reyna án þess að þetta væri inni — við ætlum, heyrist mér á framsögumanni nefndarinnar, að taka þetta inn milli umræðna og lagðar hafa verið til breytingar sem færa þetta í annað horf — af því að það hafa ekki komið fram neinar brotalamir á því fyrirkomulagi sem sveitarfélögin hafa haft. Ef það væri til staðar fyndist manni eðlilegt að taka þetta til umfjöllunar en hér hefur það alla vega ekki komið fram. Þess vegna leggjast bæði Sambandið og Reykjavíkurborg sérstaklega gegn þessu.

Og komin er fram tillaga sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta, um breytingu á 1. mgr. 23. gr., sem er þá viðbót við greinina. Hún hljóðar svona:

„Öll innkaup ríkis, stofnana þess og annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr., á vörum og þjónustu yfir 15.500.000 kr. og verkum yfir 49.000.000 kr. skal bjóða út og gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í IV. kafla.“

Svo bætist við:

„Hið sama gildir um öll innkaup sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sem ná viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. Sveitarfélögum er að öðru leyti heimilt að beita lögum þessum í heild eða hluta við innkaup sín og skulu setja sér reglur um þau.“

Þetta var viðbótin að stærstu leyti. Og svo kemur:

„Viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa opinberra aðila á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu skv. VIII. kafla skulu fara eftir 4. mgr.“

Hér er komin fram tillaga sem mér finnst alveg vert að skoða.

Í þessu samhengi þegar talað er um þennan mun á ríki og sveitarfélagi, þ.e. þessi miðlæga stofnun sem við þekkjum, Ríkiskaup, sem ríkið og stofnanir þess eru að nýta sér í þessu samhengi, þá er því ekki fyrir að fara hjá sveitarfélögunum. Um leið og þrengd eru skilyrði sveitarfélaga eru heimildir ríkisins og ríkisstofnana rýmkaðar. Því að ráðherra er heimilt að kveða á um lægri viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa opinberra aðila, þ.e. fyrir utan sveitarfélögin og stofnanir þeirra. Þegar við horfum til þess að það er enn einn kostnaðaraukinn sem sveitarfélögin þurfa að takast á við þá þurfum við aðeins að fara að staldra við. Þetta er líka talið auka flækjustigið, samhliða þessum kostnaðarauka við sérfræðiþjónustukaupin. Það er jafnvel talað um að stærri sveitarfélögin munu þurfa að fjölga stöðugildum þar sem fleiri verkefni muni þurfa að fara í útboð. Samband íslenskra sveitarfélaga getur ekki tekið undir að hægt sé að fullyrða, eins og kemur fram í frumvarpinu, að þessi formfesta muni leiða til aukins kostnaðar bara fyrst um sinn. Því það er líka, eins og ég nefndi áðan, kærunefnd útboðsmála. Sveitarfélögin telja að því fylgi mikill kostnaður af því að það muni að öllum líkindum fleiri mál fara í þann farveg.

Ég hefði viljað að við skoðuðum þetta betur því það er jú svo að ríkið kemst hjá þeim kostnaði sem fylgir þessu, fyrst og fremst í gegnum Ríkiskaup, og með alls konar smáinnkaupum sem það gerir með gerð rammasamninga sem sveitarfélögin gera ekki. Það má vel vera að með tíð og tíma færi þau sig nær því og sérstaklega kannski þessi stóru, en þau eru bara um margt svo ólík, þarfir þeirra margra ólíkar þótt þau stærri geti kannski hugsanlega komið sér upp einhverju slíku miðlægu apparati.

Sveitarfélögin eru að reyna að styrkja nærumhverfi sitt og það getur vel verið að það séu hagsmunir hvers samfélags á hverjum tíma að versla á sínu atvinnusvæði í stað þess að þurfa að bjóða þetta allt saman út. Þó að maður vilji sjá virka samkeppni og að jafnræði fyrirtækja verði aukið er hætta á því að það geti flust úr sveitarfélögunum þar sem þau byggja á því í raun að vinna verk sem gjarnan eru líka unnin á tiltölulega afmörkuðum tíma. Það er nú eitt af því sem hefði þurft að ræða. Sökum veðurfars og annarra slíkra þátta er gjarnan verktími sveitarfélaga frekar takmarkaður að mjög mörgu leyti yfir hábjargræðistímann frá vori og fram á haust þar til fer að snjóa. Þess vegna er enn mikilvægara ef maður vill halda litlum verktökum í sveitarfélögunum á lífi, þá er þetta partur af því að þeir geti gert það, þ.e. fengið að taka þátt í þessum verkum innan sveitarfélaganna.

Af því að ég ætla ekki að tala mjög lengi um þetta langar mig þó að nefna þessa samninga sem framsögumaður fór inn á, að komið hefði verið til móts við sveitarfélögin með því að fækka dögunum, þ.e. biðtímareglunni svokallaðri, 1. mgr. 86. gr. frumvarpsins, þ.e. úr tíu dögum í fimm daga. Það þarf að bíða með framkvæmd samninga í fimm daga eftir að ákvörðun hefur verið tekin um val á tilboði. Núna er það ekki fyrir hendi. Þessi verk sem eru undir núverandi viðmiðum þurfa ekki að bíða, það er hægt að fara í verkin strax. Tekið var einmitt dæmi um að ef gera þyrfti við eitthvert smotterí væri kannski ekki alltaf heppilegt hjá sveitarfélögunum að þurfa að bíða í þennan tíma, þessa fimm daga, það geti í raun tafið og skemmt meira en orðið væri. Mér finnst þetta vera góðra gjalda verðar athugasemdir sem ég hefði viljað sjá að við hefðum tekið tillit til. Sérstaklega að þessir tveir þættir hefðu fengið að vera óbreyttir. En það var ákvörðun meiri hlutans að láta þetta fara í gegn með þessum hætti.

En það er líka allt í lagi að benda á að erlendis, þ.e. á Norðurlöndunum, hefur verið svolítið kallað eftir því að breyta viðmiðunarfjárhæðunum vegna þess að það hefur ekki gengið nógu vel hjá sveitarfélögunum. Í Noregi er verið að mæla fyrir um einfaldari málsmeðferðarreglur undir viðmiðunarfjárhæðum, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Þá kom fram líka varðandi Danmörku að þar eru ekki allir samningar undir þessum evrópsku viðmiðunarfjárhæðum og ekki allir kæranlegir til kærunefndar. Bent hefur verið á að kostnaður þeirra, eins og í Danmörku, margfaldaðist, þ.e. sérfræðikostnaður sveitarfélaganna, vegna bæði undirbúnings innkaupaferla og svo kærufjölda sem margfaldaðist. Mér finnst þetta vera eitthvað sem við hefðum átt að taka annan snúning á. Ég legg kannski til að við gerum það í nefndinni á milli umræðna.

Að öðru leyti er frumvarpið nokkuð gott, held ég. Ég held að við höfum reynt að koma til móts við það sem að öðru leyti var nefnt í nefndinni. Auðvitað er það aldrei svo að öllum líki. Það þarf þá bara að taka þetta upp ef eitthvað reynist ekki ganga nægjanlega vel. Þá er hægt að taka upp einstaka greinar og fara yfir þær og láta á það reyna, eins og hér var nefnt með lyfjainnkaup Landspítalans, að ekki hefði verið látið á það reyna. Ég get fallist á þá tillögu sem hér snýr að því.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga. Þetta er í heild sinni ágætt frumvarp að frátöldu þessu með sveitarfélögin sem mér finnst við vera sem þing sífellt að stinga okkur inn í bæði þeim til kostnaðarauka og eins varðandi sjálfsstjórnarrétt þeirra.