145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma hér upp til að gera grein fyrir fyrirvara. Við erum öll á nefndarálitinu en minni hlutinn er með fyrirvara. Hann er vegna þessara umdeildu greina, þ.e. þetta voru þær greinar sem við eyddum mestum tíma í og varða t.d. samkeppnismatið. Ég held reyndar að niðurstaðan hafi einhvern veginn náð að fara bil beggja. Mér sýnist ekki að þetta ætti að vera íþyngjandi fyrir þær opinberu stofnanir sem vilja freista þess að fara í opinber innkaup með einhverjum erlendum stofnunum, eins og framsögumaður fór hér yfir og ég ætla ekki að fara að rekja nánar. Við skoðuðum þetta fram og til baka og komumst að niðurstöðu sem ég vona að verði nokkurn veginn ásættanleg.

Það sem vafðist meira fyrir mér voru rök sveitarfélaganna varðandi það að þurfa að uppfylla þessar lagaskyldur í staðinn fyrir að hafa bara sínar innkaupareglur. Þar var í raun hægt að skilja bæði sjónarmiðin. Það er eðlilegt að gera þá kröfu að skattgreiðendur, hvort sem þeir eru útsvarsgreiðendur eða skattgreiðendur — að tryggt sé að þar séu góð ferli og að menn séu alltaf að leita hagstæðustu tilboða. Eins og ég skildi það voru áhyggjurnar ekki síst vegna kærunefndar útboðsmála, hvaða áhrif það hefði ef verktakar eða aðrir sem boðið hafa í, fara að kæra útboð í gríð og erg. Það mundi tefja verkin. Það ætti í raun ekki að tefja verk þótt farið yrði í eitthvert kæruferli, en ég held að ástæða sé til að fylgjast með því þegar þetta kemur til framkvæmda hvernig það kemur út fyrir sveitarfélögin. Auðvitað viljum við setja löggjöf sem þarf aldrei að breyta og getur verið hér næstu 10–20 árin óbreytt. En þegar við erum með lagaákvæði sem við sjáum ekki alveg fyrir áhrifin af er sjálfsagt að vera á verði og skoða hvort það hafi raunverulega þær afleiðingar sem sveitarfélögin óttuðust. Ég er ekki endilega viss um að svo sé en ég ætla heldur ekki að taka fyrir það.

Annað í þessu samhengi snýr að kærunefndum. Það er kannski útúrdúr, en það á aldrei að vera hægt að nota kærunefndir í þeim tilgangi að stöðva mál eða bara til að vera með leiðindi. Ef einhver vísir er að því er það sums staðar þannig að beðið er um málskotsgjald sem er endurgreitt ef viðkomandi vinnur málið fyrir kærunefndinni eða niðurstaðan er viðkomandi í hag. Það er nokkuð sem mér finnst að horfa mætti til stundum, ég er ekki að segja að það eigi við hérna en ég þekki dæmi um kærunefndir sem eru að kafna í málum. Verið er að senda inn alls kyns mál sem væri kannski ekki gert ef það væri eitthvert hóflegt málskotsgjald. Ég er ekki búin að hugsa þetta til enda en mér datt það í hug þegar verið var að tala um í nefndinni hvort menn mundu fara offari í því að kæra útboð til að reyna að hafa áhrif á framkvæmdina — kannski ekki til að tefja hana, en til þess að fá úr því skorið með hvaða hætti túlka á lögin. En að því sögðu er kærunefnd að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt úrræði. Það sem gerir að verkum að ég sætti mig nokkurn veginn við þetta er að það er mikilvægt að þeir sem taka þátt í útboði í sveitarfélögum hafi einhvern rétt, einhverja leið til að kanna hvort á þeim sé brotið.

Þetta eru nú bara tvær greinar í lagabálki sem telur yfir hundrað greinar. Ég held að þetta sé mestallt til bóta. Ég er 90% sammála þessu. Fyrirvarinn er þá fyrir hin 10%. Eins og ég segi þarf bara að hafa augun opin varðandi samkeppnismatið og sjá hvernig innkaup sveitarfélaga koma út úr þessu. Við þurfum að fylgjast með því.