145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:34]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt góður punktur og það var rætt í nefndinni að minni sveitarfélögin, kannski úti á landsbyggðinni, mundu vilja eiga viðskipti við einhverja á sínu svæði, auðvitað vonandi að því tilskildu að tilboðið væri gott. Við fengum þau viðbrögð að menn gætu svo sem hugsað sér einhverja útfærslu á því en við fengum enga útfærslu. Það er ekki auðvelt að fara í kringum þetta. Það verður líka að horfa til viðmiðunarupphæðanna, ef um er að ræða framkvæmdir innan við 49 milljónir þá gilda lögin ekki og þegar kemur að vörum og þjónustu eru það 15,5 milljónir. Það var spurning hvort ætti að hækka þetta viðmiðunarþrep fyrir sveitarfélögin. En á móti komu rökin að það þyrfti líka að vera mjög faglega að því staðið hvernig farið væri í útboð, það væru líka hagsmunir sveitarfélaga og útsvarsgreiðenda að leitað væri hagstæðustu tilboða. Þessi grein þvældist verulega fyrir mér, það vöknuðu margar spurningar. Þess vegna treysti ég því að sambandið fylgist með hvort þessi lagasetning hafi neikvæð áhrif t.d. á lítil sveitarfélög, löggjafinn verði þá látinn vita af því, eða hvort þetta breyti kannski mjög litlu. En þetta var rætt og þetta eru sjónarmið sem eru virkilega skiljanleg.