145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vildi inna hana eftir því hvort hún teldi tilefni til að kalla eftir þessari útfærslu inn í nefndina á milli umræðna þegar þessari umræðu er lokið þannig að þetta fáist skýrt í hinni þinglegu meðferð.

Hitt sem ég vildi spyrja þingmanninn um lýtur að töfum á framkvæmdum sem orsakast af kærumálum. Ég skildi þingmanninn þannig að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að kærumál mundu tefja framkvæmdir. En það væri gott ef þingmaðurinn gæti skýrt í hverju það liggur. Ég hefði haldið að ef Orkuveitan væri til að mynda að bjóða út kaup á hverflum í nýja virkjun eða túrbínum sem kallaðar eru og slíkt útboð væri kært af öðrum bjóðanda en þeim sem gengið var til samninga við gæti það kallað á að í slíkum samningum yrði sveitarfélagið eða fyrirtæki sveitarfélagsins að bíða með að ganga frá kaupunum þar til niðurstaða væri fengin í kærumál. Þannig geti þetta orsakað tafir á framkvæmdum. Fyrst og fremst til skýringar á þessu þætti mér vænt um að þingmaðurinn færi í gegnum það.