145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hafði ekki ímyndað mér að skoðun mín á því hvernig Evrópureglur um lyfjaöryggi eru notaðar sem tæknileg viðskiptahindrun hér á landi mundu valda þeim hughrifum sem hér urðu út af Evrópusambandinu. Það segi ég nú alveg satt.

Fyrst framsögumaður málsins tók á þessum athugasemdum mínum af þeim krafti sem raun ber vitni tel ég nauðsynlegt að útskýra mál mitt aðeins nánar. Þegar innri markaði Evrópusambandsins var komið á seint á níunda áratugnum var það gert með því að afnema tæknilegar viðskiptahindranir innan efnahagsbandalagsins, sem svo hét þá. Efnahagsbandalagið var stofnað 1956. Þar átti að vera fríverslun og engar hindranir áttu að vera á því að flytja varning milli landa. En menn settu sér samt ákveðna staðla þannig að Frakkar voru með sérstaka staðla í hinum ýmsu efnum, Þjóðverjar með aðra og Bretar þá þriðju. Það hindraði viðskipti á milli landa. Þá var gerð áætlun um innri markaðinn um það hvernig ætti að afnema þetta. Það átti að ganga í gildi 1. janúar 1989. Það varð til þess að hagvöxtur fór á flug í Evrópu því að viðskipti jukust. Það var mikil bjartsýni í evrópsku efnahagskerfi á þeim tíma.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, segir að Evrópusambandið gangi út á það að einhverjir framkvæmdastjórar í Brussel hlýði sérhagsmunaöflum. Eitt af því sem gert var í innri markaðnum til dæmis, eftir að vöruskiptin, ef svo má segja, tæknilegu viðskiptahindranirnar voru settar þar, var að komið var á frjálsu flugi. Hér áður fyrr máttu ekki flugfélög fljúga nema með sérstöku leyfi. Hvert ríki gaf út leyfi fyrir þetta flugfélag eða hitt. Ég vann hjá Evrópusamtökum flugfélaga. Hverjir voru í því? Ég held að flugfélögin hafi verið tólf eða þrettán. Það var British Airways, Lufthansa, Air France, öll þessi stóru svokölluðu þjóðarflugfélög sem voru öll meira og minna á hausnum. Ég fékk vinnu þar því að ég hafði unnið hjá Flugleiðum. Við vorum aðilar að þessu sambandi. Síðan gerðist það að hin vonda framkvæmdastjórn í Brussel og þau samtök fóru fram með áætlun um að afnema þessar skorður, þessi leyfi einstakra ríkja til að leyfa einstökum flugfélögum að fljúga þessa leiðina eða hina. Þá var bara sagt: Nú ræður viðskiptalífið, og þeir sem vilja fljúga þangað sem þeir vilja fljúga gera það. Sjáum flugið í dag. Sjáum verð á flugi í dag. Um tuttugu flugfélög eða meira fljúga til Keflavíkur á sumrin. Því fylgir lægra verð og aukinn ferðamannastraumur á löngum tíma.

Ég nefni annað dæmi þar sem hinir vondu postular í Brussel komu líka við sögu. Þeir afnámu ríkiseinokun á síma og fjarskiptum. Það var gert í Brussel. Það var bara til eitt fyrirtæki, British Telecom, og það var France Télécom, svo var eitt á Ítalíu og Síminn var hér. Það var það nú hið vonda Evrópusamband sem afnam það. Ekki voru ríkisstjórnirnar ánægðar með það. Þær vildu halda þessu fyrir sig. En þetta var barið í gegn. Á endanum eru það alltaf þjóðirnar sem samþykkja að gera hlutina. Svo sjáum við hvernig símafyrirtæki og fjarskipti blómstra í dag.

Hinni evrópsku samvinnu hefur ekki tekist nógu vel upp í sambandi við lyfin. Það er vegna þess að lyfjafyrirtækin úti í heimi eru ákaflega rík eins og hér og berjast gegn því sem mest þau mega að þessi markaður verði frjáls eins og annar markaður. Þau hafa svolítið til síns máls vegna þess að lyf eru hættuleg. Þess vegna þarf að setja sérstakar reglur um lyf. Lyfjafyrirtækin nota þessar reglur til þess að halda mörkuðum aðskildum. Þess vegna eru lyf svo dýr. Náttúrlega út af mörgu öðru, en þetta er ein af ástæðunum.

Sérhagsmunir á Íslandi halda lyfjum innan þessara tæknilegu viðskiptahindrana. Það er ekki neitt sem bannar okkur frekar en Lúxemborg að nota aðrar lyfjastofnanir. Lúxemborg notar belgísku lyfjastofnunina og það er ekkert sem bannar okkur að nota þá dönsku. Ekki neitt. Ef Lúxemborgarar geta gert það getum við gert það.

Þetta er nú það eina sem ég ætlaði að koma til skila. Ég held að ef þessar tæknilegu viðskiptahindranir varðandi lyf væru afnumdar mundi lyfjaverð hér lækka.