145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst út af ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um það sem snýr að Evrópusambandinu sem ég held að sé bara gott að við ræðum. Þetta er ræða sem á kannski við svolítið gamlan tíma. Ég hvet hv. þingmann til að fylgjast með umræðunni eins og hún gerist í Evrópu núna í tengslum við blessað Evrópusambandið.

Evrópusambandið er tollabandalag. Hugmyndin er merkantílismi. Hugmyndin er þessi: Við ætlum að loka okkur af, við erum svo ríkur markaður. Þess vegna segja t.d. erlendir stjórnmálamenn við mann og hafa gert í mörg ár og áratugi: Þið verðið að koma inn í Evrópusambandið því að þið fáið allt en borgið ekki neitt. Við erum með aðgang að markaðnum.

Varðandi tæknilegu viðskiptahindranirnar þá er alveg hárrétt að mjög margar þeirra voru felldar niður með sameiginlega markaðnum. Það var almenna reglan. Lyfin eru eitt af þeim sviðum þar sem það var ekki gert út af áhrifum lobbýgrúppanna. (VBj: … öryggisreglunum.) Þetta eru engar öryggisreglur, þetta er tóm þvæla. Halda menn virkilega að ef við fáum lyf sem eiga að fara í gegnum dönsku lyfjastofnunina sé það eitthvað stórhættulegt af því að við erum Íslendingar? (VBj: Nei, að sjálfsögðu ekki.) Þetta er bara fullkomin della. (VBj: Sammála.) Þetta er ekki gert til annars en að halda uppi verði hér á lyfjum og ástæðan fyrir því að þetta er gert er sú að framkvæmdastjórnin er ekki háð neinum, enginn kýs hana. Reyndar er fólkið í framkvæmdastjórninni fólkið sem aðildarlöndin eru búin að kjósa út. Neil Kinnock er gott dæmi, Peter Mandelson og þessi Juncker sem var skrifað um réttilega af held ég Viðskiptablaðinu sem hættulegasta manninn í Evrópu í dag. Kannski ekki alveg sá hættulegasti en alla vega er erfitt að vera óheppnari með leiðtoga en þann ágæta mann.

Evrópusambandið er alltaf að búa til tæknilegar viðskiptahindranir til að halda öðrum vörum frá Evrópumarkaðnum. Íslendingar finna fyrir því, t.d. ef maður kaupir amerískar vörur og ég veit ekki til þess að þær séu baneitraðar. Tökum bara eitt dæmi: Síðast þegar ég fór til Bandaríkjanna tók ég alla vega ekki mat frá Evrópu með mér, ég er bara frekar slakur með það og almennt eru Bandaríkjamenn ekki að drepast yfir því að borða amerískar vörur sem fara í gegnum amerísku matvælastofnunina, en hér er það þannig að ef ég kaupi dós af Heinz eða hvað það er þá er á henni lítill miði sem sýnir 100 grömm, innihald út frá 100 grömmum en ekki, svo ég sletti, virðulegi forseti, „per serving“. Þetta er tæknileg viðskiptahindrun sem Evrópusambandið kemur á til þess að stoppa samkeppni annars staðar frá. Ég held að enginn þræti fyrir þetta nema hugsanlega tveir flokkar á Íslandi sem vilja ganga í Evrópusambandið og annaðhvort reyna að tala ekki um þetta og ýta þessu frá sér eða horfa á heiminn allt öðruvísi en hann er. Þeir eru kannski þrír.

Evrópusambandið hefur aldrei beitt sér fyrir fríverslun á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna þess að það hefur ekki áhuga á því. Það sem gerist er þetta: Reglugerðafarganið frá Brussel er til komið vegna þess að stóru aðilarnir sjá hag í því að vera með mikið af reglum, miklu reglugerðafargani, til þess að halda litlu aðilunum í burtu. Þetta er vel þekkt, nema kannski þegar íslensku Evrópusérfræðingarnir sem eru eins og ESB-klappstýrur hérna, álitsgjafarnir, tala um hlutina. Þetta er umræða sem var t.d. mjög áberandi í Brexit-kosningunni. Það komst að vísu aldrei í íslenska fjölmiðla því að það var alltaf túlkað af aðilum sem eru jafn miklir aðdáendur Evrópusambandsins og ég er aðdáandi breska knattspyrnuliðsins Liverpool, og ég er mjög mikill aðdáandi. Ef ég kem hins vegar á fotbolti.net eða eitthvað slíkt er ég titlaður sem slíkur, sem aðdáandi Liverpool, eðlilega. En þegar Evrópusérfræðingarnir koma fram í íslenskum fjölmiðlum er eins og þeir séu einhverjir hlutlægir Evrópusérfræðingar, sem þeir eru ekki. Þeir eru aðdáendur Evrópusambandsins.

Staðreyndin er þessi: Evrópusambandið er sýknt og heilagt að setja tæknilegar viðskiptahindranir til að halda samkeppni frá. Tökum eitt dæmi: Ef við skoðum niðurstöðuna sem kom fram þegar þið voruð að rembast við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið, hvað sögðu aðilar, íslensku sérfræðingarnir, um hvaða áhrif það hefði? Jú, ef Ísland gengi í Evrópusambandið mundi verð á öllum vörum hækka. Þetta er áður en við felldum niður tollana. Verð á öllum vörum mundi hækka fyrir utan ESB og ekki aðeins það heldur þyrftum við að fjölga tollvörðum um nokkur hundruð.

Hv. þingmaður brosir í kampinn. Ég skal sýna hv. þingmanni þessar niðurstöður. Ég samdi þetta ekki, ég skrifaði þetta ekki. Ég hélt að vísu að ef við mundum græða eitthvað á að fara inn í tollabandalag væri það það að við gætum kannski fækkað starfsmönnum hjá tollinum. En það er öðru nær. Menn geta látið sig dreyma um Evrópusambandið og talað um það sem eitthvað allt öðruvísi en það er en það er ástæða fyrir því að samkeppnishæfni evrusvæðisins er alltaf að fara niður. Þetta átti að vera samkeppnishæfasta svæði í heiminum árið 2010 en það er svo langur vegur frá því að það hafi náðst. Ef menn skoða skoðanakannanir innan Evrópusambandsins og ekki bara á síðustu árum heldur í langan tíma þá er þetta sífellt að fara niður. Stærsta einstaka ástæðan er sú að það skiptir ekki máli hvort þetta er ESB, tökum bara sem dæmi UEFA eða FIFA, einhverja aðila sem stýra og eru með mikil völd, bera ekki ábyrgð gagnvart neinum, eru ekki kosnir af neinum, er ekki hægt að kjósa þá út, þá hefur það slæmar afleiðingar. Ég fagna þessu ekkert. Þetta er vont fyrir okkur og reyndar er þetta bara vont fyrir allan heiminn.

Virðulegi forseti. Íslenskir ESB-aðdáendur geta reynt að búa til einhvern heim úr Evrópusambandinu eins og þeir vilja. En meðan fólk hefur aðgang að internetinu, getur ferðast og lesið fjölmiðla annars staðar þá getur það kannað þessi mál, sem er tiltölulega einfalt, það er búið að gera margar skýrslur og úttektir á Evrópusambandinu og Íslandi. En það er eins og með margar aðrar skýrslur, menn vilja alls ekki ræða efnið, menn skulu alltaf ræða formið. Þetta liggur allt fyrir. Evrópusambandið er til og búið að vera til lengi, menn geta alveg búið til einhverjar draumasögur og ýkjusögur um Evrópusambandið en hver sem vill getur kynnt sér málið. Menn geta kynnt sér nákvæmlega það sem ég sagði og kannað hvort það sé rétt. Ef einhver vill fá upplýsingar um hver var niðurstaða íslensku sérfræðinganna sem kynntu sér það hvaða áhrif það hefði á íslenska neytendur ef við færum í ESB er sjálfsagt að verða við því og koma þeim skilaboðum áleiðis. Reyndar mun ég gera nokkuð í því að koma þeim skilaboðum áleiðis, ef maður fær einhvern tíma að ræða um Evrópusambandið við þetta fólk sem reynir hvað það getur að koma Íslandi þangað með þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér. Það hefur verið nokkur vöntun á því að fá íslenska ESB-aðdáendur til þess að ræða þau mál á opinberum vettvangi að öðru leyti en í einhverjum hlutum sem engu máli skipta í stóra samhenginu.

Hér komu hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir og hv. þm. Helgi Hjörvar og blönduðu sér í umræðuna um sveitarfélögin. Mér finnst rétt að vekja athygli á því sem kemur fram á bls. 3 í nefndarálitinu í kaflanum Viðmiðunarfjárhæðir og valdheimildir kærunefnda vegna innkaupa sveitarfélaga, en þar segir:

„Í 23. gr. frumvarpsins, sem fjallar um viðmiðunarfjárhæðir, er miðað við að öll innkaup bæði ríkis og sveitarfélaga á vörum og þjónustu yfir 15,5 millj. kr. og framkvæmdir fyrir meira en 49 millj. kr. skuli bjóða út í samræmi við innkaupaferli frumvarpsins.“

Fyrir utan þetta er félagsþjónusta undanskilin og ýmislegt annað. Ég verð að viðurkenna að ef menn ætla ekki að bjóða út fyrir þessar fjárhæðir finnst mér það svolítið sérstakt. Síðast þegar ég vissi, það er að vísu eftir minni, virðulegi forseti, en ég held að ég fari rétt með það, gátu sveitarfélög notað sér þjónustu Ríkiskaupa. Auðvitað geta sveitarfélögin sjálf sett sína eigin innkaupastofnun á fót ef menn vilja og geta unnið saman í því ef vilji væri til þess. En hér töluðu menn eins og þetta væri bara kostnaður. Af hverju eiga menn að fara í útboð? Það er til að fá hagstæðasta verðið, bestu þjónustuna. Til þess er leikurinn gerður.

Við höfum náð miklum árangri á kjörtímabilinu hvað þetta varðar. Um daginn voru fjórar ekkert mjög stórar opinberar stofnanir sem buðu út tölvur og pappír og spöruðu á því 90 millj. kr. Ég held að við ættum að vera með umhverfi sem ýtir undir að opinberir aðilar séu með útboð. Ég hélt að það væri vilji til að hvetja til þess. Hér er ekki um að ræða neinar smáupphæðir, þetta eru engir fimmhundruðþúsundkallar. Þetta eru annars vegar 15,5 millj. kr. fyrir vöru og þjónustu og framkvæmdir fyrir 49 millj. kr. Ef einhver vill ekki bjóða út framkvæmdir fyrir meira en 49 milljónir finnst mér það svolítið sérstakt, ég skal bara viðurkenna það og vera alveg hreinskilinn með það. En það er sjálfsagt að fara yfir þetta. Það er alveg rétt að þetta kemur inn á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að hér sé boðið út, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Ég mundi ætla að menn fögnuðu því þegar við stígum slík skref og ef menn ætla ekki að bjóða út fyrir þessar háu fjárhæðir verða í það minnsta að koma mjög, mjög góð rök fyrir því.